Yndislegu “40 mínútna lúrarnir”

Yndislegu “40 mínútna lúrarnir”

Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég pistil um daglúrana sem dóttir mín tók fyrsta árið sitt. Ég má til með að endurbirta þennan pistil þar sem ég er ennþá að heyra af foreldrum sem eru líka að upplifa “Yndislegu 40 mínútna lúrana” og frábært að geta deilt minni sögu og hvað virkaði fyrir okkur. 

 

Áður en ég eignaðist barnið mitt hafði ég ekki hugmynd um að það væri til eitthvað sem hétu „40 mínútna lúrar“. Ég hélt að öll börn tækju góða og langa lúra á daginn því þannig höfðu flest öll börn sem ég hafði passað í gegnum tíðina verið.

Við verðandi foreldrarnir lásum okkur til um svefnvenjur barna áður en litla stelpan okkar kom í heiminn og vorum tilbúin að gera allt eftir bókinni varðandi nætursvefninn. Við pössuðum vel upp á að gefa henni merki sem skilgreindu mun á nóttu og degi og héldum allri „þjónustu“ í lágmarki yfir nóttina. Þetta gekk allt glimrandi vel og við svo ótrúlega heppin með að „reglurnar í bókinni“ virkuðu fyrir okkar barn.

 

 

Svo kom að lúrunum á daginn! Það var einhvernvegin alveg sama hvað við gerðum hún vaknaði alltaf eftir u.þ.b. 40 mínútur. Hvort sem hún var lögð í vagninn eða vögguna. Það var alveg týpískt að ég var rétt búin að bíta fyrsta bitann af matnum mínum þegar barnið vaknaði.
Þar sem nætursvefninn er og hefur alltaf verið í góðum gír finnst mér þetta ekki atriði til að kvarta yfir, því ég elska að vera með barninu mínu og finnst hún skemmtilegasti félaginn til að eyða deginum mínum með. En fann að hún var ekki úthvíld þegar hún vaknaði svo ég ákvað að prófa að hringja í svefnráðgjafasímann og heyra hvað fagfólk hafði um málið að segja. Sérstaklega í ljósi þess að ég heyrði fleiri og fleiri tala um að þeirra barn væri líka að vakna eftir 30-40 mínútur. Ég sló á þráðinn og fékk nokkur tips til að hafa bak við eyrað og fór að prófa mig áfram.

 

 

Ég fann út að það sem virkaði fyrir mitt barn var að setja hana út í vagn og láta hana sofna sjálfa (án þess að rugga), þegar hún var búin að sofa í 30 mínútur klæddi ég mig í úlpu og skó og fór út að labba með vagninn og labbaði í 30 mínútur. Þá var hún búin að sofa í 60 mínútur og gat oftar en ekki tekið einhvern tíma í viðbót eftir að ég hætti að labba.

Ástæðan fyrir því að barn vaknar eftir 30-40 mínútur er að svefnhringur barna er þannig uppbyggður að þau leysa oft svefninn eftir ca. 40 mín og vekja þá sjálfan sig eins og mín litla forvitna stelpa gerði. Þegar ég labba með vagninn rífur hún sig ekki upp því það er svo notalegt að sofa á ferð.

Ég notaði gönguferðirnar sem líkamsrækt fyrir mig og viðringu fyrir hundinn okkar og stundum þegar það var gott veður tók ég tveggja tímagönguferð og litla dúllan mín svaf á meðan og kom svo hress og úthvíld inn að leika.

Núna er hún orðin 10 mánaða og þetta er farið að eldast af henni og lúrarnir farnir að lengjast og ég get skrifað bloggfærslur á meðan hún leggur sig, eitthvað sem var ekki séns að gera fyrir nokkrum mánuðum síðan.

 

 

Mín reynsla af svefnráðgjafasímanum er rosa góð, ég hef hringt þrisvar sinnum því ég kýs að hringja áður en hlutirnir verða að vandamáli sem erfiðara er að taka á og það hefur orðið til þess að allt gengur smurt og vel hjá okkur. Ég sigta að sjálfsögðu út úr ráðleggingum þeirra eins og öllum ráðleggingum sem ég fæ og skoða hvað hentar mér og mínum gildum í uppeldinu. Mér finnst ekkert að því að viðra málin við fagfólk og fá aðstoð ef þess þarf þótt það sé um „smámál“ að ræða. Góður svefn er mikilvægur fyrir alla.

Svefnráðgjafar taka símann á mánudögum og þriðjudögum frá kl 15-17, það kostar 200 kr mínútan og hægt er að lesa meira um þetta allt saman á facebook síðunni þeirra sem má finna HÉR.

 

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku