Villtumst við einhversstaðar af leið?

Villtumst við einhversstaðar af leið?

Ég fagna því mjög mikið hvað samfélagið er orðið vakandi fyrir þessum tíma sem er að ganga í garð. Jólatímanum.
Ég fagna því hvað fólk er orðið meðvitað fyrir því að við erum einhversstaðar búin að klúðra þessu, að við villtumst einhversstaðar af leið og gleymdum því í smá stund hvað það er sem er jólahátíðin á að snúast um.

Ég hef alltaf átt rosalega erfitt með þennann tíma, alveg frá því að ég var barn. Ég byrja að fyllast kvíða í nóvember því að ég elska þennann tíma á sama tíma og ég get alls ekki hugsað út í það hvert við erum komin með þetta. Ég var alltaf mjög kvíðin á jólunum sem barn því að mér fannst þetta svo mikið stress og ekki alveg snúast um það sem að mér fannst rétt. Ég var oftar en ekki með kökk í hálsinum allann aðfangadag og táraðist við hið minnsta. Aðfangadagur snérist um að klára að taka til, undirbúa matinn og fylgjast með klukkunni (með kannski smá slökun inni á milli).
Ekki misskilja mig – ég var auðvitað spennt að fá gjafir eins og öll önnur börnin. En það vantaði samt alltaf eitthvað í heildarmyndina hjá mér og mér fannst allir svo stressaðir og tæpir. Hafa skal vissulega í huga að ég er ofurnæmur einstaklingur (“highly sensitive person”) og hlutir sem hafa ekki endilega áhrif á aðra hafa alveg gríðarlega mikil áhrif á mig..

Ég lít á aðventuna sem síðustu vikur ársins sem ég nota til að fara yfir liðið ár, kveðja sársaukann sem hefur mætt mér það árið og þakka fyrir það góða sem árið bauð upp á. Þakklæti til þeirra sem standa mér næst og ég tek á móti nýja árinu með ástvinum mínum (ég ætti svo alls ekki að fara út í það hversu viðkvæm ég er fyrir áramótunum er það?.. úff…)

Í mínu uppeldi hef ég reynt að tileinka mér og kenna að þetta snýst ekki um gjafir, ný jólaföt, hreint og fínt hús, peningaeyðslu og neyslu.
Við Anja, 12 ára dóttir mín, höfum aldrei átt sérstök jólaföt – ef við höfum keypt okkur/fengið eitthvað nýtt fyrir jólin þá hefur alltaf verið passað upp á að það verði hægt að nota það við önnur tilefni allt árið. Helst meira að segja að hægt sé að klæða það niður og nota hversdags líka. Við höfum aldrei átt jólaskó og við pössum líka alltaf upp á að jólafötin okkar séu notaleg. Í fyrra vorum við stórfjölskyldan saman yfir jólin í bústað og ákváðum að vera bara í náttfötum á aðfangadag. Í ár ætlum við að vera í fyrsta skipti heima hjá okkur ég og maðurinn minn og koma foreldrar mínir til okkar. Við ætlum að halda áfram með þessa góðu og notalegu hefð og verðum bara í einhverjum kósýfötum heima.. Ég er hvort sem er alltaf komin í ullarsokka og peysuna hans pabba kl: 19:15.

Ég var einstæð móðir með Önju í 9 ár. Á þeim tíma kláraði ég tvö háskólanám og vann smá með þegar ég gat. Þegar engin mánaðarmót ná nokkurntímann saman og alla mánuði þarf að telja hverja einustu krónu ofan í sig, þá er gríðarlega kvíðavaldandi að þurfa allt í einu að kaupa jólagjafir fyrir þónokkuð marga þúsundkalla fyrir þónokkra einstaklinga. Ég reyndi auðvitað alltaf að hafa gjafirnar í lágmarki, en þessi auka nokkur tugi þúsunda sem jólamánuðinn kostaði mig á þessum tíma var alveg algjörlega ógerlegur nema setja sig í skuld. Skuld sem bættist síðan ofan á mínusinn næstu mánaðarmótin á eftir. Þið skiljið hvert ég er að fara með þetta.

Það er erfitt að vera sá eini sem gefur ekki gjafir eða vera alltaf sá eini sem að gefur litla gjöf – sér í lagi þegar ástæða þess er fátækt, þá fylgir því skömm ofan á allt hitt. Spurningarnar sem hrynja síðan inn um hvort búið sé að kaupa gjöf handa þessum og hinum eða hvað þú ætlir að gefa hinum og þessum bæta síðan ekki líðanina og vanlíðanin og kvíðinn eykst. Ég vildi óska þess að ég hefði fundið það hjá sjálfri mér á þessum tíma að það hefði bara verið allt í lagi að kaupa bara gjöf handa Önju og sleppa handa hinum ástvinum mínum. Ég átti ekki nema um 30. – 40.000 eftir reikninga í hinum venjulegu mánuðunum. Ég hafði ekkert efni á jólum!

Fyrir mig vil ég að jólin og jólaundirbúningur snúist um þakklæti, ást, virðingu og vinskap. Að eyða tíma með þeim sem þú elskar og njóta þess bara að vera í núinu þínu. Á okkar heimili erum við til dæmis með viðburðardagatal í desembermánuði þar sem hver gluggi inniheldur einhverja gleði fyrir okkur til að gera saman á aðventunni. Það þarf ekki að vera stórt og er allt frá því að spila spil saman, borða ís í kvöldmat, baka smákökur, fara út að renna eða rölta um hverfið og skoða jólaljósin í gluggunum. Við höfum aldrei verið með öðruvísi dagatal og Anja myndi ekki taka það í mál að breyta þessari hefð! Anja hefur einnig aldrei verið með súkkulaðidagatal, enda er alveg nóg af sykri sem fylgir aðventunni fyrir litla kroppa. Ég vil ekki bæta við einum súkkulaðimola á hverjum morgni eða einu litlu súkkulaðistykki á hverjum degi ofan á allt hitt! Ég sakna myndadagatalana sem tengdust jóladagatali sjónvarpsins. Þar sem maður opnaði einn glugga sem hafði að geyma litla mynd sem tengdist þætti dagsins. Dagurinn fór þá í að vera spenntur og velta vöngum yfir því hvað verði í þætti dagsins, hvað myndum merki og hverju hún tengist.

 

Allur þessu asi, peningaeyðslan, stressið, neyslan, kvíðinn og almenna sturlunin sem einkennir samfélagið á þessum tímum finnst mér svo langt frá því að vera í samræmi við minn jólaanda. Það er ekkert rétt við það að rifrildi, drykkja og ofbeldi eykst til muna á þeim heimilum sem eru að berjast við slíkt, kvíði og þunglyndi hjá þeim sem veikir eru fyrir fer í hámark og það er aldrei eins mikið að gera hjá prestum, sálfræðingum og hjónabandsráðgjöfum eins og eftir jólahátíðina. Við skulum ekki gleyma því að á bak við allt þetta eru í flestum tilfellum börn sem þjást yfir jólahátíðina.

Mér finnst að fólk meigi stoppa aðeins við og velta fyrir sér hvað það er sem jólin virkilega snúast um. Hvar stendur það að þessi tími eigi að snúast um allann þennan asa og alla þessa peningaeyðslu?

Ekki misskilja mig – ég veit að í lang lang lang flestum tilfellum eru allir að njóta og elskast yfir þennann tíma og almennt elskar fólk jólin og allt sem því fylgir og flestir eru alveg rólegir bara. En samt sem áður þá er eitthvað rangt í þessu hjá okkur og einhversstaðar fórum við mannkynið út af sporunum og gleymdum okkur í þeim forréttindum og góðæri sem við lifum við. Þess vegna segi ég eins og í byrjun, að ég fagna því að við virðumst meira og meir vera að opna augun okkar fyrir þessu. Allavegana hef ég aldrei lesið jafn marga pislta, greinar og blogg um að stoppa aðeins við, hægja á okkur og spá í það sem við erum að gera.

 

Við eyðum um milljarð á hverju ári í jólagjafir! Milljarð! Í jólagjafir sem voru ekki endilega á óskalistanum eða jólagjafir sem við erum ekki endilega viss um að hinn aðilinn vilji eða muni nota! Í örfáum tilfellum held ég að fólk hafi efni á þessu og eigi þennann pening í vasanum.

Mig vantar aldrei neitt í jólagjöf og ég veit aldrei hvað ég á að gefa öðrum eða hvort aðilinn muni nota það eða vilja. Enda er ég alltof oft sek um að kaupa bara eitthvað í von um að það falli í kramið, sé geggjað og hinn aðilinn hafi akkúrat verið að óska sér það og vantaði það mjög nauðsynlega.

Ég hef þó aldrei tekið það af Önju að fá gjafir eða hvatt fólk til að gefa henni ekki gjöf og ég mun ekki gera það heldur við Esjar. Þau eru auðvitað bara börn En ég hef þó beðið um að hafa það í huga að gefa eitthvað sem ég þarf hvort eða er að kaupa handa þeim. Anja er gríðarlega nægjusöm, þarf ekki mikið og þær gjafir sem hafa oft staðið upp úr voru pínulitar aukagjafir líkt og varasalvi eitt árið og pínulítill kettlingabangsi annað árið.

Notum frekar tækifærið ef við viljum gefa gjafir yfir jólahátíðina og gefum ástvinum okkur eitthvað persónulegt sem gleður í stað þess að eyða miklum peningum í dýrar og stórar gjafir sem viðkomandi var kannski ekkert að óska sér. Gefum frekar heimagerðar persónulegar gjafir, upplifun, samveru, eitthvað sem eyðist og þar fram eftir götunum.

 


Ef eyða á öllum þessum upphæðum, hugsum þá aðeins til þeirra sem búa hér á landi og geta ekki einu sinni gefið börnunum sínum jólagjafir. Fólk út í heimi sem á ekkert í sig og á, börn sem fá ekki að borða, fólk sem býr í fljottamannabúðum og svona gæti ég haldið endalaust áfram.
Hvernig væri að gefa þeim rausnarlega jólagjöf.
Þurfum við í alvörunni á öllum þessum hlutum að halda?
Nei við þurfum það alls ekki.
Höfum í huga þær gjafir sem virkilega hjálpa hjá til dæmis UNICEF á Íslandi, UNWOMEN eða Hjálparstarf kirkjunnar. Höfum í huga Fjölskylduhjálp Íslands og Rauði krossinn ásamt öllum því göfuga starfi sem er í gangi á Íslandi þar sem er verið að aðstoða þá sem virkilega þurfa á þessum milljarð ykkar að halda!

Væmin og tilfinninganæm Linda, out!

 

p.s. þið tókuð kannski eftir því að ég ræddi ekkert matarsóun og flokkun á sorpi í kringum jólin í þessum pistli. Það er af því að ég er mjög sek um að vera api þar og get því ekki lesið yfir einum né neinum. En ég er að reyna að læra þar og gera mitt besta!

p.p.s ég á og rek netverslunina Unalome.is – ekki hætta að versla við mig þó ég sé að lesa yfir ykkur samt. Vörurnar mínar eru hannaðar af okkum mæðgum annarsvegar og hannaðar og keyptar af litlum fjölskyldum á Balí sem lifa við fátækt. Ég er að gera góðverk þar…

Facebook Comments
Linda Sæberg

Linda er 36 ára gömul, unnusta og tveggja barna móðir, með gráður í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Hún er tilfinninganæmt fiðrildi sem veit ekki hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór en rekur verslunina Unalome ásamt öðru. Stundar jóga og hefur miklar unun af andlegum málefnum. Elskar að ferðast, skapa og njóta, gleðst yfir góðu kaffi og súkkulaði og er interior elskandi.