Þá er enn á ný að hefjast ný vinnuvika! Ég skipulegg vikuinnkaupin mín á mánudögum og finnst þess vegna best að nýta sunnudagana í að taka til í frystinum, skoða vel hvað ég á í ísskáp og af þurrvöru og setja saman matseðil fyrir vikuna.
Við borðum oft hádegismat í vinnunni minni og sleppum því yfirleitt vel með kvöldmat en ég skipulegg vikuna samt sem áður alltaf með heitar máltíðir 6 daga og eina kalda, létta máltíð sem er stundum skipt út fyrir afganga ef til eru.
Hér kemur hugmynd að vikumatseðli!
Mánudagur: Ofnsteiktur lax í lime&smjöri með sætum kartöflum og salati.
Svo dásamlega einfalt og fljótlegt í framkvæmd! Ég sker sætar kartöflur í tvennt, smá olía og salt ofan á “sárið” og inní ofn á 180°C í ca 60mín (fer auðvitað aðeins eftir stærð). Fiskurinn er smurður með blöndu af bræddu smjöri og safa úr lime (ca 1msk smjör á hvern bita/lítið flak) og inní ofn þegar u.þ.b. 20mínútur eru eftir af tímanum fyrir kartöflurnar. Borið fram með fersku salati!
Þriðjudagur: Kjúklinga/spagetti lasagna
Ég nota yfirleitt afganga kjúkling í þennan rétt sem gæti ekki verið einfaldari! Kjúklingur rifinn niður í litla bita og spagetti soðið.
1 stór dós kotasæla, 1 dós hakkaðir tómatar, 1msk tómatpúrra, salt&pipar er svo allt sem þarf til viðbótar ásamt rifnum osti.
Þegar spagetti-ið er soðið er öllu þessu blandað saman í eldfast mót, rifinn ostur ofan á og inní ofn þar til osturinn er bráðnaður.
Borið fram með hvítlauksbrauði og fersku salati!
Miðvikudagur: Boost & hrökkbrauð


Þetta súkkulaðiboost er nýja uppáhaldið mitt og óspart notað á þessu heimili! Hrökkbrauð með hummus er annað uppáhald og einfalt að grípa í með 🙂
Súkkulaðiboost fyrir2:
300ml hafrasúkkulaðimjólk
1dl frosið mango
1banandi (má gjarnan vera frosinn)
1 kúfuð msk hnetusmjör
1tsk kakó
1 skeið súkkulaðiprótein (má sleppa)
Fimmtudagur: Hakkgrýta og sætar kartöflur
Hakk steikt á pönnu, 1dós af svörtum/pintó baunum bætt útí ásamt hökkuðum rauðlauk og sveppum! Meðlæti er sætar kartöflur og ferskt salat.
Föstudagur: Pizzakvöld!
Það er alltaf pizza í matinn á mínu heimili á föstudögum og virðist einfaldlega ómissandi í lok vinnuvikunnar að baka sér pizzu og njóta 🙂
Laugardagur: Kjúklingasteikarloka m/bernaise sósu
Ég eiginlega elska þetta meira en steikarloku með nautakjöti! Léttara, ótrúlega auðveld matseld og smakkast dásamlega.
Ég nota kjúkling, steiki rauðlauk-sveppi-papriku á pönnu uppúr smjöri, rista brauð, bernaise sósa og avocado! Meðlæti í uppáhaldi er ferskt salat og ofnbakað brokkolí!
Sunnudagur: Kjúklingaleggir og meðlæti
Einfalt á sunnudögum er yfirleitt mitt mottó! Hérna eru það ofnbakaðir kjúklingaleggir, soðnar sætar kartöflur og mikið af fersku salati.