Viðmót fagfólks gegn fólki í yfirvigt vs kjörþyngd

Viðmót fagfólks gegn fólki í yfirvigt vs kjörþyngd
Viðmót fagfólks gegn fólki í yfirvigt vs kjörþyngd

Ég hef lengi ætlað að skrifa þetta blogg, en nú finnst mér rétti tíminn. Í ljósi þeirra umræðu sem hefur verið varðandi líkamsþyngd og læknisaðstoð langar mig að segja frá minni upplifun. Ég er neflilega með MS og hef verið með þann sjúkdóm í ýmsum þyngdum! Þegar ég greindist var ég um 60 kílóum þyngri en ég er í dag.

Ég er ennþá með MS en er töluvert léttari í dag einsog ég nefni hér áður og má því segja að ég hafi mikla reynslu á að leita til lækna í kringum mín veikindi í hinum ýmsu líkamsþyngdum. Áður en ég greindist leitaði ég marg oft til lækna og var það yfirleitt allt skrifað á þyngdina. Að hinir ýmsu verkir, líkamleg og andleg vanlíða væri útaf þyngdinni og var ég því ekki skoðuð neitt frekar.
Ég vil meina að það hafi verið útaf því hvernig ég leit út, eingöngu vegna þyngdar minna að ég hafi ekki verið send í skoðun fyrr ég bókstaflega datt niður. Þá var ég þá búin að upplifa allskonar verki um allan líkaman í langan tíma, dofa, svima og annað sem telst ekki eðlilegt fyrir tvítuga stelpu. Eins sorglegt og það er að upplifa að ekki sé tekið mark á þér vegna þess að þú ert ekki í “stöðluðu” formi er vond tilfining. Svo vont að framkoma lækna gagnvart mér í gegnum árin hefur orðið til þess ég hef lært að harka af mér, frekar en að leita til þeirra. Að vera 60 kg léttari í dag og finna að viðmót lækna sé allt annað í minn garð gerir mig leiða. Leiða þegar ég hugsa til fólks sem er í nákvæmega sömu stöðu og ég var í, þurfa virkilega á aðstoð sérfræðinga að halda en finna fyrir að ekki sé tekið mark á þeim vegna líkamlegs útlits.
Ég hef mína sögu, enn í dag hef ég enn mikinn kvíða fyrir að leita mér aðstoðar, þrátt fyrir að ég sé búinn að léttast. Ég áttaði mig ekki á því fyr en um daginn þegar ég átti tíma hjá lækni hversu mikil áhrif þetta hefur haft á mig. Ég er oft veik og líður óbærilega, en frekar sit ég í fósturstellingu í sturtuklefanum grátandi frekar en að leita til læknis. Því ég er hrædd um að ég sé ekki nógu fín til þess að það sé tekið mark á mínum sársauka. Ég hef staðið mig að því að vera gera mig tilbúna til að fara til læknis og viljað hafa mig extra til svo það sé hlustað á mig. Það er þegar ég get ómögulega harkað meira af mér.
Í dag líður mér mér töluvert betur því ég er búinn að létta mig, en það reyndist mér erfitt að hafa orku til að hreyfa mig og breyta um mataræði þegar ég fékk ekki eða treysti mér ekki til að leita þeirra aðstoðar sem ég þurfti virkilega á að halda. Ég er með yndislegan heimilslækni sem ég treysti fullkomlega, svo ég er alls ekki að tala illa um heila starfstétt og ég vil taka það fram að þetta er mín upplifun. Ég vil bara að fólk sem er í yfirþyngd fái sama rétt og sama viðmót og aðrir sem eru í kjörþyngd.
Facebook Comments