Töfrar Seyðisfjarðar

Töfrar Seyðisfjarðar

Við fjölskyldan tókum skyndiákvörðun (eftir að hafa fengið veðurfréttirnar frá Sólveigu Ásu) að skreppa til Seyðisfjarðar um síðustu helgi en þar býr tengdamóðir mín svo hæg eru heimatökin að fá gistingu.
Við stoppuðum stutt í þetta skiptið, komum á föstudagskvöldi og vorum lögð af stað heim um kaffileitið á sunnudegi.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta skiptið sem ég kem til Seyðisfjarðar en eftir því sem Ríkharð Valur verður eldri finnst mér upplifunin að vera þar skemmtilegri og hann naut sín í botn!

Á þessum stutta tíma sem við stoppuðum náðum við að gera ansi margt! Númer eitt-tvö og þrjú var auðvitað að hjóla um allan bæ og fara á milli leikvalla á svæðinu. Bærinn er á flatlendi að mestu og auðvelt fyrir drenginn að hjóla um, tveir mjög flottir leikvellir eru á staðnum sem við notuðum mjög mikið þessa helgi.


Morgnarnir byrjuðu á því að mamman sótti sér take away kaffi frá Hótel Öldunni og síðan var rúllað af stað í könnunarleiðangra!


Ég fór að sjálfsögðu ekki tómhent heim úr Gullabúinu sem er að mínu mati ein skemmtilegasta búð landsins! Og þau eru meira að segja komin með netverslun (skoða hér) sem bjargar mér á milli heimsókna.

Á laugardagskvöldinu fórum við parið á Norðaustur sushistað bæjarins en ég hafði ekki prófað hann áður, sem er eiginlega óskiljanlegt miðað við hvað ég elska sushi mikið. Ég tók “Chef’s choice” og smakkaði þar af leiðandi allskonar sem ég hefði annars aldrei pantað mér sjálf. Þessi staður fær 12 af 10 mögulegum! VÁ, bilaðslega gott sushi..þjónustan til fyrirmyndar, sushi-ið er gert jafnóðum og því eins ferskt og það getur orðið.

Sunnudagurinn var svo tekinn rólega, Sólveig Ása var líka á ferðalagi um Austurlandið og þau rúlluðu á Seyðis og hittu okkur. Krakkarnir léku mikið á leikvöllunum, við fengum geggjaða grillaða hamborgara á Café Láru og brunuðum svo heim eftir frábæra helgi á dásamlegum stað.

Ég hvet ykkur öll til að renna  yfir heiðina ef þið eruð á Austurlandinu og kíkja á Seyðisfjörð!

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.