Þegar “allt og ekkert” stal jólunum!

Þegar “allt og ekkert” stal jólunum!

Ég hef áður skrifað færslu í þessum dúr og langar að gera það aftur, einfaldlega vegna þess að ég tel að þetta eigi ennþá við og ég þarf að minna sjálfa mig á!

Þannig er mál með vexti að undanfarin ár, já ekki eitt ár heldur mörg þá hef ég orðið veik fyrir eða um jólin með ælupest og tilheyrandi.

Ég tengdi þetta alltaf bara við jólamatinn sjálfann, að ég væri að borða yfir mig af reyktu og steiktu, já og súkkulaði!

Fyrir síðustu jól, árið 2015 fann ég svo enn eitt árið…á aðfaranótt jóladags að ég væri að verða veik, mér var orðið óglatt og ælupestin mætt. Frábært hugsa ég, núna passaði ég mig svoooo vel, borðaði ekki svínakjötið, drakk mjög lítið malt&appelsín og borðaði ekki 12 skálar af ís hjá ömmu.

Þá rann svolítið upp fyrir mér, uppsafnaður kvíði var sökudólgurinn! Þetta voru neflilega nákvæmlega eins einkenni og þegar ég fæ kvíðakast.

Var kvíðinn minn virkilega búinn að stela jólunum mínum nokkur ár í röð?

Já er svarið!

Hvað get ég lært og hvað get ég gert fyrir þessi jól og á aðventunni?

Kveikt á fleiri kertum og dimmað ljósin og sleppt því að krefja sjálfa mig um að þrífa bakvið þvottavélina og inní fataskápum.

Kaupa bara smákökurnar ef ég hef ekki tök á því að baka þær.

Kaupa bara nóg af ilmkertum með grenilykt.

Bara miklu frekar mæta á öll jólahlaðborðin og vinahittingana, föndurdaginn í leikskólanum og jólaballið, því það er það sem þetta snýst allt um! Að njóta tímans með þeim sem okkur þykir vænt um og finnst gaman að umgangast, borða góðan mat og spjalla saman. Föndra “ljóta” jólaföndrið með börnunum og mála piparkökur, mæta á jólaskemmtunina og búa til minningar. Það eru alltaf minningarnar sem standa uppúr og það man engin okkar hvort að bakarofninn var glansandi hreinn fyrir síðustu jól, en þú mannst miklu frekar hvað það var gaman að sækja jólatréið með fjölskyldunni eða skera út laufabrauðið!

Hættum að spá svona ofboðslega mikið í þessu veraldlega og förum að hlúa meira að þessu andlega!

Blessuð jólin koma alltaf, 24.desember rennur alltaf upp alveg sama hversu mikið eða lítið við þrífum, bökum eða pússum 😀

undirskriftasta

Mynd: Halldóra K Photography
Tekin í desember 2015

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.