Slysin gera ekki boð á undan sér – reynslusaga

Slysin gera ekki boð á undan sér – reynslusaga

Í október fór ég með litlu fjölskyldunni minni til Spánar. Tengdaforeldrar mínir búa þar og eru með sundlaug í garðinum hjá sér. Þar sem það var október var vatnið í lauginni frekar kalt og við ekkert á leiðinni í sund. Dóttir mín sem er 2 ára var auðvitað aldrei ein í garðinum og þegar hún fór nálægt lauginni var hún í björgunarvesti, svona litlu krúttlegu vesti sem hún gat líka leikið sér í og var ekki fyrir henni.

Svo gerðist það sem við óttuðumst einn morguninn. Hún var að leika sér úti við sundlaug, í björgunarvesti utan yfir náttfötin sín og hafði misst skóflu út í laug. Pabbi hennar stóð á sundlaugarbakkanum tveim skrefum frá henni en var ekki með augun á henni á þeirri sekúndu sem hún teygði höndina í átt að skóflunni. Ég hafði farið inn að finna á hana föt og steig út um leið og þetta augnablik átti sér stað og sá hana fara ofan í laugina, með hausinn á undan sér á eftir skóflunni. Ég var fljót að hlaupa að, greip í fótinn á henni og náði að hífa hana upp úr vatninu. Hún náði andanum næstum um leið og hún kom upp úr en hóstaði aðeins áður en hún byrjaði að gráta.

Við pössuðum öll uppá okkar viðbrögð í aðstæðunum og vorum öll róleg, ég útskýrði fyrir henni hvað hefði gerst, við þurrkuðum henni og tókum úr blautu fötunum. En við vorum auðvitað öll í sjokki !!

Dóttir mín var komin í vestið og farin að teygja sig á eftir dóti úti í laug seinna sama dag og ekki vitund hrædd þótt ég væri ennþá að endurupplifa þetta atvik aftur og aftur í hvert sinn sem ég lokaði augunum og hugsa mér hvað við vorum lánsöm að ekki fór verr.

En tilgangur þessarar færslu er auðvitað fyrst og fremst áminning til allra sem umgangast börn og vatn, það þarf ekki nema 2 sekúndur! Aldrei láta börn vera eftirlitslaus því slysin gera ekki boð á undan sér.

 

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku