Nokkur orð um næringu

Nokkur orð um næringu

Janúar er hálfnaður og samfélagsmiðlar (og aðrir miðlar) uppfullir af hverskyns heilsudögum, prógrömmum, kúrum, tilboðum og loforðum um skjótann árangur.
Margir nýta upphaf árs sem einhverskonar nýtt upphaf sem er algjörlega frábært og ég hvet alla til að setjast á heilsuvaginn…en ég myndi líka vilja sjá sem flesta þar til lengri tíma.

Í staðin fyrir auglýsingar með fullyrðingum um hversu mörg kíló fara og um alla sentimetrana sem munu fjúka myndi ég vilja sjá upplýsingar og fræðslu um hvernig fólk lærir að lesa á næringarinnihald í vörum, viti hvað orkuefnin gefi okkur og af hverju það er nauðsynlegt að borða úr öllum fæðuflokkum.

Eftir að hafa lært bæði næringarfræði og stúderað matvælafræði er maður eiginlega orðlaus yfir hversu frjálsleg markaðssetning á heilsu má í rauninni vera, hversu opið það er að hver “sérfræðingurinn” á fætur öðrum geti slengt fram allskyns “fræðslu” um næringu og heilsu.

Við, mannsskepnan, erum ekkert nema vaninn einn og til að breyta vana þarf meira til en 4ra vikna kúr, 7daga selleríföstu eða hvað þetta nú allt heitir.

Mig langar að gefa ykkur örfá ráð inní nýja árið, vonandi nýja heilsuárið!

-Neyttu fæðu úr öllum fæðuflokkum (ef þú ert grænmetisæta þá úr öllum flokkum sem það býður uppá)
-Þegar þú skoðar innihaldsefni vöru temdu þér að velja vöru sem þú skilur (helst) öll innihaldsefnin, að minnsta kosti fyrstu 4-6.
-Drekktu vatn!
-Hugsaðu um matinn sem þú borðar sem orku, bensín á tankinn. 200 hitaeiningar af sætindum eru ekki það sama og 200 hitaeiningar af grænmeti og ávöxtum!
-Taktu eitt skref í einu að bættri heilsu. Byrjaðu á einum hlut og þegar það er komið í vana (td borða einn ávöxt á dag), byrjaðu þá á næsta.
-Settu grænmeti inní allar máltíðir dagsins!
-Að lokum, ekki gleyma að njóta! Það hefur marg sýnt sig að fáir haldast á einhæfu,of ströngu og “þurru” mataræði! 

Ég gæti skrifað endalaust..en mig langar að byrja á þessu og um leið hvetja ykkur áfram á heilsubrautinni 🙂

 

Höfundur er með BSc. próf í næringarfræði við Háskóla Íslands og að ljúka MSc. gráðu í Matvælafræði.

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.