Ljótar balletttær?

Ljótar balletttær?

Ég skráði tæplega 2 ára gamla dóttur mína í ballett fyrir stuttu. Þetta var stutt námskeið fyrir 2ja ára börn sem mér fannst kjörið að skella mér með hana á. Við höfum verið dugleg að fara með hana á námskeið í tónlist og hreyfingu síðan hún var pínu pons og fannst kjörið að prófa ballett næst.

Mynd af Pinterest.com

Dóttir mín er altalandi, segir langar setningar og er mjög skýr. Í þessum ballett tímum lærði hún samt nýtt orð, þetta orð er greinilega ekki mikið notað heima hjá okkur en allir verða samt að kunna það. Orðið var „ljótar“. Þótt það sé allt í hinu besta lagi að barn sem verður bráðum 2 ára kunni að segja „ljótar“ alveg eins og það kann að segja önnur lýsingarorð fannst mér þetta samt mjög óviðeigandi kennslustund. Ástæðan er einföld, „ljótar“ var partur af lagi sem börnin sungu um líkamann sinn. Textinn er einhvern vegin svona „Ljótar, ljótar balletttær. Fínar, fínar balletttær“ og börnin áttu að benda á fæturna á sér um leið og þau sungu.
Ég skil vel að tilgangur lagsins á að vera að kenna börnunum að í ballett er maður með strektar ristar, en er samt ekki svolítið skrítið að kenna 1. árs gömlu barni lag um að eitthvað við líkamann þeirra sé ljótt? Hverju er verið að planta í hausinn á þeim?

Við skemmtum okkur mjög vel á ballettnámskeiðinu, dóttir mín mun betur en ég og hana langaði helst ekkert heim eftir að tímanum lauk.
En ég held að ég velji ekki aftur ballett fyrir hana. Ef hana langar í ballett aftur verður það að hennar frumkvæði og ég hef vonandi nokkur ár til að hugsa málið hvort það verði í boði.

Kannski að við prófum fótbolta næst, ætli séu sungnir niðurrifssöngvar í þeirri íþrótt?

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku