Lítil Kraftaverk

Lítil Kraftaverk

Það tók okkur um 3 ár að verða ófrísk af Önnu Hrafnhildi og með hjálp Art medica kom þessi dásamlega stelpa til okkar í júlí 2015. Ég eins og eflaust margar í þessari stöðu heyrði endalaust af kraftaverkasögum um konur sem urðu svo bara óvænt ófrískar án þess að þurfa nokkra hjálp þegar allt benti til vonleysis. Ég þoldi ekki þessar sögur, tók lítið mark á þeim þar sem þetta var alltaf vinkona frænku einhverjar, eða vinkona vinkonu vinkonu. Ég tók það í sátt um leið og ég varð ófrísk af Önnu að ég þyrfti að ganga í gegnum sama ef ekki bara erfiðara ferli með næsta barn, og mér þótti það ekkert vandamál ákvað bara strax að vera ekki að draga mig niður á því.

Nú í sumar varð Anna 2 ára og við Atli ákváðum að fara að skoða þessi mál aftur. Fórum á IVF klínikina í sömu próf og skoðanir og við fórum í fyrir 3-4 árum. Því miður komu þær ekki eins vel út fyrir mig og líkurnar búnar að minnka þar sem einhver hormón hjá mér voru komin lengra niður en þau voru þegar við áttum Önnu. Spurningin var hvort við þyrftum strax í glasa eða hvort við gætum prófað tækni fyrst. Ávörðun var tekin um að prófa tækni fyrst mest tvisvar sinnum og ef ekkert gerðist að fara þá í glasa. Læknirinn sagði við okkur að vera ekki of lengi að ákveða hvenær við vildum byrja því tíminn væri ekki að vinna vel með okkur. Við vorum með brúðkaup planað 4.nóvember en ákváðum að við myndum samt byrja í meðferðum í september/október. Þetta var í byrjun júlí sem við vorum síðast hjá lækninum og tókum þessa ákvörðun. Síðan fórum við í sumarfrí og ákváðum að vera ekkert að velta okkur upp úr þessu heldur njóta þess að vera í fríi saman.

Við vorum búin að vera fyrir norðan í 4 daga þegar ég fer að pæla í blæðingum hjá mér, gat ekki munað hvenær þær voru síðast þar sem ég var ekkert að fylgjast með þessu neitt sérstaklega. Ég reyndi að fresta því eins lengi og ég gat að taka óléttupróf, ég er búin að taka ansi mörg í gegnum tíðina og það eru alltaf vonbrigði að fá neikvætt og því frestaði ég þessu alltaf aðeins ef ske kynni að ég myndi byrja. En á endanum keypti ég próf og pissaði á það.

Ég ætlaði ekki að nenna að líta á það því mér fannst þetta svo mikill óþarfi en loksins tók ég það upp og kíkti. Fyrir framan mig blöstu tvær eldrauðar línur! Ég þurfti hreinlega að klípa mig til þess að átta mig á því að ég væri að sjá rétt. Þarna voru þær, tvær eldrauðar linur, þessar línur sem ég hafði þurft að hafa svo mikið fyrir að fá á próf voru nú komnar öllum að óvörum án nokkurra meðferða eða útreikninga á egglosi.  Ég labbaði í hálfgerðum móki fram og bað Atla að koma með mér niður í herbergi. Hann bjóst auðvitað við því að ég væri að segja honum að prófið væri neikvætt, en í staðinn sýndi ég honum prófið og sagði við hann að ég héldi hreinlega að ég væri ólétt. Hann starði á þessar tvær eldrauðu línur og sagði við mig ,,HELDURU?¨  svo brosti hann út að eyrum og faðmaði mig. Við vorum eiginlega ekki að átta okkur á þessu fyrr en við fengum tíma í snemmsónar og lítil baun blasti við okkur.

Nú er ég komin rúmlega 16 vikur, brúðkaupi var frestað þar til barnið kemur í heiminn sem er auðvitað ekkert annað en dásamleg ástæða til að fresta brúðkaupi. Aldrei gat mér grunað að ég yrði ein af þeim sem sögurnar væru um, þessi sem átti ekki að geta eignast barn sjálf en svo bara kom það án nokkurra vandræða. Ég væri þessi saga sem ég blótaði svo mikið og þoldi ekki að heyra. En allt getur greinlega gerst og ég get ekki beðið eftir því að okkar annað kraftaverk mæti í heiminn.

 

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.