Klassísk Rice krispies kaka

Klassísk Rice krispies kaka

Í afmælisfærslu sem ég setti inn um daginn (sjá hér) má sjá Rice Krispies köku á afmælisborðinu sem ég er iðulega með í barnaafmælum hjá mér. Ég útbý yfirleitt tölustaf, mér finnst bitarnir verða passlega stórir og þægilegt að skera. Satt best að segja klárast þessi kaka alltaf og er alltaf jafn vinsæl hjá krökkunum og fullorðna fólkinu líka.

Uppskriftin er upphaflega úr Gestgjafanum og þar er hún notuð til að gera Rice Krispies kransaköku. Ég nota hana hins vegar alltaf til að gera tölustafi en þar sem uppskriftin er frekar stór set ég yfirleitt afganginn í möffinsform, þ.e. ef mér finnst tölustafurinn orðinn nægilega stór. Það væri líka auðveldlega hægt að helminga uppskriftina. Trikkið við þessa köku er að nota súkkulaðihjúp en mér finnst best að nota dökkan súkkulaðihjúp.

Klassíska og besta Rice Krispies kakan

480 g súkkulaðihjúpur
1 dós síróp – best í grænu áldósinni
150 g smjör
280 g Rice Krispies

Aðferð
Hjúpsúkkulaði, síróp og smjör sett í pott. Hrærið stöðugt í á meðan súkkulaðið er að hitna svo það brenni ekki við. Látíð sjóða í 2 mínútur og hrærið í á meðan.Takið pottinn af hellunni og bætið Rice Krispies út í pottinn og blandið vel saman. Mótið tölustaf úr blöndunni eða setjið í form. Best að geyma kökuna á köldum stað þar til hún er borin fram.

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.