Kerran með í ferðalagið

Kerran með í ferðalagið

Nú er fjölskyldufólk farið að flykkjast til útlanda og ég hef tekið eftir því að fólk er oft í erfiðleikum með hvernig það á að fara að því að ferðast með barnakerruna svo hún kom heil úr fluginu. Það vill nefnilega svo til að barnakerrur og barnavagnar fá alveg sömu meðhöndlun og ferðatöskurnar – semsagt ekki mjög mjúklegar viðtökur.

Ef kerrur verða fyrir miklu hnjaski getur kerrugrindin skekkst og getur það haft áhrif á þegar kerran er í notkun. Einnig getur kerrugrindin rispast og dældir geta komið í hana, ásamt því að ákæðið kerrunar getur rifnað og blettir geta komið í það, t.d. olíublettir sem er nánast illmögulegt að ná úr.

Barnakerrur geta kostað heilan helling og ég held að það séu flestir sammála mér að það er mikilvægt að fara vel með svo dýra hluti svo þeir endist sem best. Því langaði mig að benda ykkur á nokkra möguleika sem eru í boði þegar ferðast er með barnakerrur í flugi.

Pakkaðu kerrunni inn

Í byggingarvöruverslunum er hægt að kaupa bóluplast í metratali. Mældu hvað þú þarft mikið til að pakka kerrunni þinni inn og taktu svo með þér límband til að líma plastið utan um þegar þú ert komin upp á flugvöll (ef þú ætlar að nota kerruna á flugvellinum). Einnig er hægt að nota þykkt plast eða jafnvel stórt teppi og festa það með ferðatöskuólum sem fást t.d. í bókabúðum og í Duty Free á flugvellinum. Athugaðu samt að þessi lausn er einnota, þannig ef þú ert að fara að fljúga fram og til baka mæli ég með að taka tvo umganga af plasti með þar sem það getur rifnað auðveldlega í fluginu.

Kerrutöskur

Hægt er að kaupa sérstakar kerrutöskur fyrir barnakerruna sem ver hana gegn hnjaski. Sumar töskur eru sérstaklega hannaðar fyrir ákveðnar kerrur en öðrum er ætlað að passa fyrir fleiri en eina tegund af kerru. Ég mæli með þessari tösku hér sem er frá Stokke. Hún er vel bólstruð og slitsterk. Hún er líka á hjólum svo hægt er að draga hana á eftir sér. Hún kostar sitt en mér finnst það alveg þess virði ef ferðast á með dýra kerru. Það gæti líka verið sniðugt ef 2-3 fjölskyldur myndu kaupa hana saman, svo lengi sem fólk er ekki að fara að ferðast á sama tíma.

Leigðu kerru á áfangastað

Margir áfangastaðir bjóða upp á kerruleigu – ásamt leigu á öðrum barnavörum, s.s. barnabílstólum. Eftir að hafa skoðað nokkrar kerruleigur á netinu kostar leigan á kerru í kringum 5.000 kr. fyrir eina viku, en það fer allt eftir hvernig kerru þú vilt, t.d. litla og netta kerru eða kerru með góðum loftdekkjum og baki sem hægt er að leggja niður. Hér eru kerruleigur á Mallorca Tenerife og í Bandaríkjunum.

Hvað á ég að gera ef kerran hefur orðið fyrir skemmdum eftir flug?

Það er mjög mikilvægt að tilkynna það strax á flugvellinum ef kerran hefur orðið fyrir skemmdum. Ef ekki gæti verið að þú fáir tjónið ekki bætt. Mér hefur fundist góð regla að taka kerruna úr umbúðunum um leið og hún kemur af færibandinu og skoða hana vel – ganga úr skugga um að hún hafi ekki tekið á sig högg og fengið dældir og einnig prófa að keyra hana og setja hana saman aftur. Ef eitthvað er ekki í lagi er gott að taka myndir strax þarna við færibandið af skemmdinni og tilkynna svo tjónið hjá þjónustuaðilum flugfélagsins á flugvellinum.

Ég hef nokkra reynslu að ferðast með kerru fyrir dætur mínar og eftir að hafa prófað að hafa kerruna ekki í neinum umbúðum og svo vafða inn í plast get ég ekki mælt nógu mikið með Stokke töskunni! Hún ver ekki bara kerruna einstaklega vel heldur er hún mjög handhæg og henni fylgir ekkert óþarfa vesen við pökkun og hægt að nota aftur og aftur.

Ég vona að þessar upplýsingar verði einhverjum til gangs fyrir komandi ferðalög!

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.