Jólasamverudagatal fjölskyldunnar

Jólasamverudagatal fjölskyldunnar

Síðustu tvö ár hef ég útbúið jólasamverudagatal fyrir okkur fjölskylduna. Það hefur lukkast alveg ótrúlega vel og allir á heimilinu njóta góðs af. Þetta er ekki bara hugsað sem afþreying fyrir börnin heldur líka fyrir okkur foreldrana – en okkur hættir til að gleyma þess að njóta allra stundanna sem við getum átt með börnunum okkar í jólaösinni í desember.

 

Svona útfærði ég dagatalið okkar fyrir jólin 2015 eftir að hafa skoðað nokkrar útfærslur á Pinterest. Þetta eru semsagt “vasar” sem ég prentaði út, klippti og límdi svo saman. Hér er hægt að sækja skjölin til útprentunar. Árið eftir notaði ég sömu vasa en notaði þá glemmur og borða til að festa þá á grein – á því miður ekki mynd af því.

 

Ég byrjaði á því að setja miða með samverustundum á þá daga sem voru fyrirfram ákveðnir hjá okkur fjölskyldunni – t.d. jólabíóferð, höggva jólatré, skreyta jólatréð og jólapeysudagur. Á kvöldin fór ég svo bara yfir afganginn af miðunum og setti í vasann fyrir næsta dag. Ef ég sá fram á að við myndum ekki hafa mikinn tíma til að gera eitthvað sem tæki langan tíma eða eitthvað sem þyrfti að fara út úr húsi fyrir þá valdi ég bara eitthvað sem kostaði litla fyrirhöfn.

Hér koma nokkrar hugmyndir af samverustundum:

 

Pökkum inn jólagjöfum

Bökum piparkökur

Spilum spil

Bakarísferð

Kíkjum á kaffihús og fáum okkur heitt súkkulaði

Föndrum jólaskraut

Kíkjum í jólalandið í Blómaval

Förum í bíltúr að skoða jólaljósin

Bökum smákökur

Horfum á jólamynd saman

Höldum fjölskylduspilakvöld

Verslum jólagjafir

Förum í göngutúr að skoða jólaljós

Fáum okkur heitt kakó og smákökur

Höggvum okkar eigið jólatré

Búum til snjókarl

Skoðum jólalandið í Blómaval

Skreytum jólatréð

Púslum jólapúsl

Lesum jólasögu

Hittum jólasveininn í Ikea

Bjóðum vinum í jólakaffi

Búum til jólanammi/jólakonfekt

Horfum á jólamynd saman

Förum í bíó

Förum út að renna

Skreytum heimilið okkar

Förum á bókasafnið

Jólapeysudagur

Setjum skóinn út í glugga og lesum um jólasveinana

Málum jólamynd

Gerum jólamöndlur

Perlum jólaskraut

Búum til jólaísinn

Förum í gönguferð með vasaljós

Skreytum piparkökuhús

Föndrum aðventukrans

 

Þessi listi er sko engan veginn tæmandi og fólk verður svolítið að finna hvað hentar hverjum og einum. Fyrstu jólin sem við fjölskyldan vorum með þetta var ég í jólaprófum og mér fannst þetta frábær leið til að gefa mér smá frí frá lærdómnum á hverjum degi og naut þess mikið að eiga þessa stund með fjölskyldunni minni.

 

Í ár ætla ég að gera nýtt svona dagatal og hlakka til að sýna ykkur útkomuna í lok nóvember og kannski gefa ykkur hugmyndir af nokkrum útfærslum næstu vikurnar.

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.