Hugmyndabanki sumarfrísins – höfuðborgarsvæðið og þar í kring

Hugmyndabanki sumarfrísins – höfuðborgarsvæðið og þar í kring

Við Ynjur tókum höndum saman og útbjuggum þennan veglega hugmyndabanka með þeirri von að hann veiti lesendum okkar innblástur að fjölbreyttum og skemmtilegum fjölskyldustundum í sumar. Ynjurnar eiga það sameiginlegt að vera allar mæður en við erum með börn á misjöfnum aldri svo vonandi geta allir fundið eitthvað við hæfi sinna barna í hugmyndabankanum okkar.

Gleðilegt sumar!

Ókeypis afþreying

Guðmundarlundur
Fyrir ofan Kórahverfi í Kópavogi er Guðmundurlundur. Þar er gaman að fara í skógarferð eða fara í ævintýraferð um göngustígana. Þar eru einnig leiktæki og lítil tjörn og einnig hægt að leiga grillhús til að grilla. Salernisaðstaða er á svæðinu yfir sumartímann. Skjólgott og falleg svæði.

 

Nauthólsvík og ylströndin í Garðabæ
Það þarf ekki að vera glampandi sól til að það sé gaman að fara í Natuhólsvík eða á ylströndina í Sjálandinu í Garðabæ. Það er hægt að klæða sig eftir veðri með bolta og/eða sandkassadót og njóta þess að moka og leika sér í sandinum.

 

Fara niður á tjörn
Alltaf klassískt að kíkja niður á tjörn og gefa fuglunum brauð. Kópavogstjörn við Fífuhvamm er mjög skemmtilegt útisvæði og hægt að taka smá göngutúr í leiðinni.

 

Hlíðargarður
Falin perla í hjarta Kópavogs. Skrúðgarður í Kópavogi sem var áður fyrr notaður fyrir 17. júní skemmtanir. Garðurinn er virkilega fallegur og skemmtilegt að fara þangað í lautarferð. Garðurinn er rétt fyrir ofan Kópavogstjörn og því er tilvalið að nýta ferðina.

 

Bókasafnið
Flest bókasöfn eru með barnahorn þar sem er að finna fjöldan allan af skemmtilegum barnabókum við allra barna hæfi.

 

Hvaleyravatn
Göngutúr í kringum vatnið, gaman að taka háf með og athuga hvort hægt sé að veiða síli. Er jafnvel hægt að taka með pylsur og einota grill eða bara nesti.

 

Prófa nýjan leikvöll
Það er mikið úrval af skemmtilegum leikvöllum á höfuðborgarsvæðinu, í miðbænum er t.d. að finna: Freyjróló, Klamratúnróló. Einnig er ævintýralegt að fara á leikvöllinn í Gufunesi en þar má finna ævintýralegan risakastala

 

Lautarferð á Hamarinn í Hafnarfirði
Það getur verið spennandi að fara í lautarferð og taka jafnvel frispí eða önnur útileikföng með.

 

Skoðunarferð um Hellisgerði
Hellisgerði í Hafnarfirði er skemmtilegur skrúðgarður með þröngum malarstígum og fallegum gróðri. Þar er líka tjörn sem er tilvalin fyrir litla pappabáta.

 

Víðistaðatún í Hafnarfirði
Getur verið skemmtilegt að klifra á listaverkunum sem eru þar í kring og leika á víkingarólóvellinum sem er þar.

 

Fara í heimsókn til vina
Það þarf ekki að vera flókið til að vera skemmtilegt, að kíkja í heimsókn til vina eða fjölskyldu.

 

Setja upp tjald úti í garði
Að tjalda út í garði eða út á svölum og færa eitthvað að leikföngum með. Garðurinn verður að nýjum ævintýraheimi!

 

Prófa sparkvellina í nágrenninu
Í flestum hverfum er að finna sparkvelli þar sem hægt er að taka með bolta og hafa gaman.

 

Fjöruferð
Fjöruferð með skóflu og fötu, týna skeljar og skoða dýralífið.

 

Ferð í Grasagarðinn
Hægt að taka með sér nesti og fara í lautarferð. Einnig gaman að skoða dýra- og plöntulífið.

 

Mála
Fara út með pensil og vatn í fötu og mála með vatninu. Skemmtilegt á rigningardögum.

 

Út að kríta og sápukúla
Hægt að kríta París eða bara fallegar myndir. Sápukúlur eru líka alltaf skemmtilegar.

 

Hjólatúrar
Hjólatúr um hverfið eða nýja staði eru alltaf skemmtilegir. Munið eftir hjálmunum – við erum fyrirmynd barnanna okkar!

 

Rölta Laugaveginn og miðbæinn
Laugarvegurinn iðar af lífi á sumrin og því er alltaf stemning að rölta þar og skoða mannlífið.

 

Spilavinir
Bjóða upp á frí spilakvöld fyrir alla fjölskylduna á föstudögum eftir vinnu.

 

Skógarferð í Heiðmörk
Hægt er að taka með pylsur og grilla á útigrillum sem eru á svæðinu. Ævintýra ferðir í skóginum geta vera spennandi.

 

Langisandur á Akranesi
Þar er ein fallegasta strönd Íslands. Þar er hægt að sulla og hafa gaman í góðu veðri eða bara taka með skóflu og fötu. Einfalt er oft best!

 

Skógræktin á Akranesi
Þar er hægt að fara í lautarferð, göngutúr, grilla, leika í leiktækjum, taka með útileikföng og fara í leiki.

 

Brúðubíllinn
Klassísku sýningarnar sem klikka aldrei, hægt að finna dagskrá og staðsetningu bílsins hérna.

 

Afþreying sem kostar

Dagsferð með nesti í Viðey
Það er æðislegt að taka með sér nesti og fara í bátsferð út í Viðey. Þar eru þægilegar gönguleiðir, litlir leikvellir og svo er kaffihús í Viðeyjarstofu. Frítt er í bátinn fyrir 6 ára og yngri. Hægt að lesa meira um bátsferðir og annað hér.

 

Ferð í Húsdýra- & fjölskyldugarðinn
Það þarf nú varla að nefna húsdýra- og fjölskyldugarðinn. En þar er að finna afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Skemmtilegt að taka með pylsur á grillið og skóflur og fötur til að nýta sandkassasvæðið.

 

Sveitaferð í Mosfellsdal – Hraðarstaðir
Þar er í boði fyrir almenning að kíkja út fyrir borgina á sveitalífið. Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðunni þeirra.

 

Sundferðir
Flest börn hafa gaman af því að sulla í vatni. Frábært að nýta sumarfríið í að prófa aðrar laugar en hverfissundlaugina. Þú finnur lista yfir sundlaugar á sundlaugar.is

 

Strætóferð
Það getur verið ansi spennandi að fara í strætóferð þegar maður er vanur að ferðast um í einkabílnum.

 

Leikhópurinn Lotta
Frábær afþreyging fyrir alla fjölskylduna, hægt að finna dagskrána hérna.

 

 

Dýragarðurinn Slakki
Dásamlegur dýragarður þar sem börnin fá að klappa dýrunum. Þar er að finna hunda, kettlinga, kanínur, svín, endur, refi og margt fleira. Frábært að fara í dagsferð út úr bænum með börnin að kíkja á dýrin. Þið finnið facebook síðu Slakka hér.

 

Hvalasafnið úti á Granda
Þar er að finna 23 hvalalíkön af hinum ýmsu hvalategundum sem hafa fundist í íslensku hafi. Öll líkönin eru í raunverulegum stræðum.

 

Smáratívolí
Þegar ekki er veður til að vera úti er hægt að skella sér í smáratívolí og leyfa börnunum að fá smá útrás í tækjunum.

 

Fara á kaffihús
Hægt að taka með liti og litabækur, sum kaffihús hafa einnig barnahorn með leikföngum.

 

Víkingaheimar
Skemmtilegt safn sem er staðsett í Reykjanesbæ. Þar er hægt að fræðast um sögu víkinga. Þar er einnig kaffihús sem flottu útsýni yfir Faxaflóann. Sjá heimasíðu Víkingaheima.

 

Árbæjarsafn
Það er alltaf klassískt að kíkja á Árbæjarsafn og skoða gamla tíma.

 

Innandyra

Búa til heimagerðan leir – uppskrift er að finna hérna
Mála eða lita
Baka
Gera hús úr stólum og teppum.
Perla
Föndra
Elda saman
Spila

Búa til heimatilbúin hljóðfæri

 

Svo að lokum er smá “sumarfrísráð” frá Ynjum, en það gæti flýtt fyrir fjölskyldunni að drífa sig út á daginn ef það er alltaf tilbúin ,,sumarfrístöska”, hún er í raun eins og skiptitaska. En í henni er gott að geyma aukasett af fötum á barnaskarann, sólarvörn, vatnsbrúsa og box með t.d. cheeriosi og rúsínum í eða annað ,,neyðarnesti” sem geymist vel, lítil útileikföng (t.d. skóflur og bíla), þvottapoka eða lítið handklæði og blautþurrkupakka. Það er svo auðvelt að skreppa út ef maður er með þetta tilbúið í tösku.

 

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.