Fyrir og eftir í Fossvoginum

Fyrir og eftir í Fossvoginum

Í lok apríl ákváðum við að ráðast loksins í smá breytingar á stofunni okkar. Það hafði verið á döfinni alveg síðan við fluttum inn en eins og gengur og gerist er ekki hægt að gera allt í einu og margt annað búið að vera í forgangi. Ég gleymdi að taka almennilegar “fyrir” myndir en þessar verða að duga.

 

Fyrir
Fyrir

Stofan okkar er bæði sjónvarpshol og borðstofa. Það sem ég elska við hana er hversu björt hún er,  risastórir 4 metra breiðir gluggar sem snúa í norður. Maður fær semsagt góða birtu inn allan daginn án þess að vera með heita sólina yfir sumartímann. Kvöldsólin rétt nær að skína hér inn þegar hún er að setjast.

 

Það sem við gerðum í stofunni var að við máluðum vegginn hjá sjónvarpinu, keyptum nýjan sjónvarpsskáp og hengdum upp myndir og hillur. Leyfi myndunum að tala sínu máli.

 

Liturinn á veggnum heitir Evening Green og er hann frá Jötun Lady og keyptur í Húsasmiðjunni, en við höfum verið mjög ánægð með málninguna frá þeim. Það sem mér finnst gera gæfumuninn fyrir þennan lit er að við tókum hann í möttu en það gefur honum svo flotta dýpt. Við máluðum svefnherbergið okkar í þessum lit áður en við fluttum inn og vorum svo rosalega ánægð með hann að við ákváðum að skella honum á stofuvegginn líka. Stundum er liturinn mjög grænn, stundum túrkis og stundum grár – alveg eftir því hvernig birtan er.

 

Mig langaði svo alltaf að gera smá myndavegg með frekar stórum svarthvítum fjölskyldumyndum. Þessar eru prentaðar í stærðinni 21×30 cm og rammarnir eru svo 30×40 cm. Eftir á að hyggja hefði ég viljað hafa þær stærri en í staðin ætla ég mögulega að bæta við fleiri myndum. Ég valdi allar uppáhalds myndirnar mínar til að setja þarna upp. Allar myndirnar, nema myndina í neðra vinstra horninu, tók Þórdís hjá Björtum börnum, en ég skrifaði einmitt færslu um bumbumyndatökuna sem við fórum í hér.

 

 

Stjörnumerkjaplattarnir fengu líka loksins að fara upp ásamt tveimur fjölskyldumyndum. Mér finnst ótrúlega gaman að vera loksins búin að “fullkomna” stjörnumerkjaplattasafnið en Símon Geir fékk sinn í sængurgjöf og því voru allir fjölskyldumeðlimir komnir með sinn platta.

 

 

Litli aðstoðarmaðurinn minn veitti mömmu sinni andlegan stuðning við þessa myndatöku.

 

Hlakka til að sýna ykkur fleira frá heimilinu á næstunni.

Þið getið fylgst með mér á Instagram og Instastory – asdisgeirs.

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.