Fljótlegt fyrir matarklúbbinn- Austurlenskt þema!

Fljótlegt fyrir matarklúbbinn- Austurlenskt þema!

Eftir vel heppnaða áramótaveislu ákváðum við, Ásta og Sólveig, ásamt mökum að stofna matarklúbb.

Planið er að hittast mánaðarlega og borða saman góðan mat og eiga saman skemmtilega kvöldstund.

Fyrir fyrsta klúbbinn völdum við austurlenskt þema og töfruðum fram kjúkling í bragðmikilli hnetusmjörssósu,heimatilbúið naan brauð og spicy sæta kartöflubáta.

Við stíluðum inn á lágmarks fyrirhöfn og stuttan eldunartíma að þessu sinni sem kom svo sannarlega ekki niður á gæðum matarins og sló þetta í gegn hjá öllum meðlimum klúbbsins.

 

 

 

Kjúklingur í kókoskarrý hnetusmjörssósu fyrir 4:

4 kjúklingabringur

1 tsk karrý krydd

1 laukur, saxaður

1 rauð paprika, söxuð

1 búnt vorlaukar, saxaðir

4 hvítlauksgeirar, saxaðir

1 rauður chilli, saxaður fínt

1 væn msk rifinn engifer

1 msk „Red Curry Paste“

2 msk hnetusmjör

2 dósir kókosmjólk

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn í nokkrar mínútur. Skerið bringurnar í bita.Kryddið kjúklinginn með karrý og bætið út á pönnunna ásamt fínt söxuðu chili. Brúnið kjúklinginn í 4-5 mínútur. Bætið þá hvítlauk, engifer, vorlauk og papriku út á veltið um á pönnunni í nokkrar mínútur.

Bætið hnetusmjöri og rauða karrý peistinu saman við og hellið að lokum kókosmjólkinni út á. Leyfið þessu að malla þangað til úr þessu er orðin góð sósa sem er farin að þykkna, 15-20 mínútur.

 

Pönnusteikt naan brauð:

Uppskrift frá Ljúfmeti og lekkerheit

1,5 dl fingurheitt vatn

2 tsk sykur

2 tsk þurrger

4 dl hveiti

0,5 tsk salt

2 msk brætt smjör

2 msk hreint jógúrt

Garam Masala

Gróft salt, t.d. Maldon

Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur.

Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur.

Skiptið deiginu í 4-6 hluta og sléttið út í aflöng brauð.

Brauðin eru svo krydduð með garam masala og grófu salti áður en þau eru steikt.

Því næst er smjör brætt á pönnu við miðlungshita og  brauðin steikt í 3-4 mínútur áður en þeim er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.

Spicy sætir kartöflubátar:

2 tsk. olía

1/2 tsk sjávarsalt

1 tsk. reykt papriku krydd (við notuðum “heitt”=sterkt)

1 stór sæt kartafla, skræld og skotin í bita

Olíu og kryddum blandað saman í skál og kartaflunum velt upp úr blöndunni.

Bakað á 180 gráðum í minnst 30. min.

 

Við mælum svo sannarlega með þessum réttum ef von er á góðum gestum í mat, og þetta er klárlega hinn fullkomni konudagsréttur þar sem hvorki þarf kokkamenntun eða mikla reynslu í eldhúsinu til að töfra þessa máltíð fram 🙂

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.