“fékkstu mænudeyfingu”?

“fékkstu mænudeyfingu”?

Það voru skemmtilegar umræður um mænudeyfingar á facebookinu mínu í gær sem fengu mig til þess að hugsa um fæðingu dóttur minnar.

Umræðurnar snérust um muninn á “deyfingarmenningu” á Íslandi vs í Bandaríkjunum, en þær sem hafa séð þættina “One born every minute” hafa sennilega tekið eftir því að þar fá nánast allar konur deyfingu eins og þær vilja.

Hver kannast líka ekki við að konum sem eiga án deyfingar sé hampað eins og hetjum?

 

Ef ég segi ykkur aðeins frá minni reynslu þá missti ég vatnið um 5 leytið aðfaranótt 28. apríl , fyrsta hríðin kom um 7 leytið og hún skall á mig eins og 30 metra hár ölduveggur og í síðasta sinn á meðgöngunni kastaði ég upp.

Tveimur tímum seinna var ég komin upp á fæðingadeildina á Akureyri í monitor.

Ljósmóðirin var nýbúin að athuga með útvíkkun hjá mér og hún var komin í 5-6 af 10 og því ljóst að þetta ætlaði að ganga mjög hratt fyrir sig

Við erum stödd inn í litlu herbergi með hallaða hurð þegar ég segi hátt, snjallt og ákveðið við kærastann minn:

“Ég verð að fá mænudeyfingu”

Í þeirri andrá labbar einhver heilbrigðisstarfsmaður fram hjá herberginu, lítur inn, smellir í góm og segir “nohh þabbarasonna” og horfði á mig með augnaráði sem gaf það skýrt til kynna að henni þætti alltof snemmt og mjög aumt fyrir 23ja ára gömlu frumbyrjuna hana mig að ætla að fá mænudeyfingu svona snemma.

Því betur var mér úthlutað dásamlegri ljósmóður sem gaf grænt ljós á deyfinguna og ég hef aldrei séð neitt fallegra en rauðhærða manninn sem kom trillandi með risa stóra sprautu á vagni sem hann stakk svo einhver staðar í hryggsúluna á mér.

Himnarnir opnuðust eftir að hann tæmdi úr sprautunni í bakið á mér, og ég fór úr því að líða eins og ég væri með 4 opin beinbrot, heiftarlega matareitrun, sprungið milta og einhver nákominn mér hafi verið að deyja, í að finnast ég nógu hress til að ganga á Everest.

Ég náði fullkominni slökun, dottaði yfir Nágrönnum, spjallaði við vinkonur mínar í símann og 90 mínútum seinna fæddi ég tæplega 4,5 kg undurfallegt stúlkubarn.

Það er ekki ein fruma í líkamanum á mér sem sér eftir því að hafa þegið deyfingu og mér mun aldrei finnast ég minni manneskja fyrir vikið eða vera með móral yfir því.

Ekkert bað, djúpöndun eða jógatónlist hefði nokkuð tíman getað minnkað þann skelfilega sársauka sem ég upplifði hríðar sem, og ég mun ekki hika við að biðja um deyfingu snemma í næstu fæðingu ef hún gengur svipað fyrir sig og sú fyrri.

 

Það að koma manneskju útúr líkamanum á sér, sama hvernig það er gert, er þrekvirki!

Deyfðar eða ekki.

Við erum allar magnaðar og eigum skilið hrós fyrir.

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.