Fæðingarsagan mín-Sylvía Haukdal

Fæðingarsagan mín-Sylvía Haukdal

Nú þegar fer að styttast í lok á þessari meðgöngu fór ég að hugsa út í fæðinguna. Ég las mæðraskýrsluna mína frá því að ég gekk með Önnu og fór að rifja upp hvernig hefði gengið og svona. Þegar ég gekk með Önnu man ég eftir því að ég las þónokkrar fæðingarsögur og fannst það mjög hjálplegt að sjá hversu misjafnar þær voru. Ákvað ég þess vegna að vera ekki með of háar væntingar þegar kæmi að minni fæðingu heldur bara bíða og sjá.

Þegar ég var komin sléttar 40 vikur bað ég ljósmóður mína að hreyfa við belgnum sem hún var sem betur fer til í. Rúmum Sólarhring seinna um kl. 03:00 að næturlagi fékk ég fyrsta verk, ég sat á klósettinu því ég var viss um að ég væri bara að fá í magann eða með vindverki og var því ekki mikið að kippa mér upp við þetta. Stuttu seinna lagðist ég aftur upp í rúm og þá kom næsti verkur, Atli varð var við þetta og fór strax fram að græja og láta renna í bað fyrir mig en þar sem það var búið að segja svo oft við mig að með fyrsta barn væri allt svo lengi af stað var ég alveg róleg.  Ég var því mjög hissa þegar stutt var í næsta verk. Það styttist hratt á milli verkja, frá því að vera 8 mínútur um 04:00 í að verða 3 um klukkan  05:00, á þessum tímapunkti voru verkirnir orðnir það harðir að mér var ekki farið að vera sama og vildi að Atli myndi hringja upp á deild. Um 05:30 hringdi Atli og sagði að við værum að koma, konan svaraði spurði hann hvort að þetta væri fyrsta barn og sagði svo að við yrðum nú alveg örugglega send heim aftur. Hann tilkynnti henni að við værum að koma.

Þegar við komum upp á fæðingardeild var okkur aftur sagt að sennilega færum við bara heim, en þegar ég var skoðuð og þær sáu hversu harðir verkirnir voru orðnir vorum við sett inn á herbergi. Ljósmóðirin byrjaði að láta mig fá glaðloft og láta renna í baðið fyrir mig. Ég man svo vel hvað ég pirraði mig á þessu fjandans glaðlofti sem mér fannst ekkert gera en andaði eins og brjálæðingur með þetta meðan ég var með hríðar.

 

Verkirnir urðu harðari og harðari og um kl.8:00 gafst ég upp á þessu glaðlofti og bað um mænudeyfingu, ofsalega var ég feginn að enginn þrætti við mig um það!

Um kl.08:40 kom svæfingarlæknir til þess að setja upp mænudeyfinguna hjá mér. Þvílík himnasending sem þessi mænudeyfing er! Allir verkir hurfu og ég gat slakað á. Ég nánast bað svæfingarlæknirinn að giftast mér þegar hann kom til þess að sjá hvort að allt væri í góðu.

Svo leið tíminn, allt í einu heyrðum við hvell í mónitornum og allt fór á flot. Þá var það vatnið sem var að fara og þá kom skýring á því af hverju ég var með svona myndarlega kúlu, daman hafði nóg pláss til að svamla í. Þegar klukkan var orðin 13 var komin tími til að rembast, eftir klukkutíma var ég orðin heldur þreytt og mænudeyingin að fara og var því bætt á hana. Svo tók við klukkutími í viðbót af rembing og lokst mætti daman í heiminn kl.15:06. Ég viðurkenni að ég var farin að stessast svo lítið þegar ég var hálfnuð því mér fannst þetta taka svo langan tíma og ekkert að ske, en allt fór vel og það algengt að konur með fyrsta barn séu lengi að rembast.

Litla daman var alveg fullkomin, heilbrigð og yndisleg. Við vorum til klukkan 21 á sjúkrahúsinu og ákvaðum svo að fara heim þegar við fengum grænt ljós.

Þetta voru bara rétt 12 klukkustundir frá því að fyrsti verkur kom og þar til hún mætti í heiminn, ljósmóðirin mín er búin að segja mér að trúlega taki næsta styttri tíma og ég verði að vera meðvituð um það. Ég man svo vel að það var alltaf verið að segja mér að með fyrsta barn tæki þetta alveg pottþétt sólarhring og stundum lengur, fann það líka þegar Atli hringdi á fæðingardeildina að um leið og þær vissu að þetta var fysta barn að þá var svona eins og þær vildu ekki fá mann því þær voru vissar um að þetta væri ekki komið á þann tíma sem þyrfti að fara upp á deild. En ég er ofsalega feginn að hafa drifið mig,  maður á að hlusta á hjartað sitt. Í versta falli fer maður aftur heim. En ég ætla samt ekkert að gera mér neinar svaka væntingar með næstu fæðingu þar sem maður veit aldrei.

Ég gerði enga fæðingaráætlun heldur ræddum við Atli bara saman um allt og hann var mjög meðvitaður um hvað ég vildi. Mér finnst mikilvægt að ræða við makann sinn eða fæðingarfélagann um ferlið enda stóð Atli eins og klettur við bakið á mér allan tíman og mamma líka, mér fannst ofsalega gott að hafa mömmu með okkur og er nokkuð viss um að ég velji það aftur.  Ég fer með litlar áhyggjur inn í næstu fæðingu með þau með mér.


Þið getið fylgst með mér á snapchat

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.