“Ekkert er komið til að vera, ekki einu sinni erfiðleikarnir”

“Ekkert er komið til að vera, ekki einu sinni erfiðleikarnir”

Ég var að brjóta saman þvott um daginn, sem er alls ekki efni í pistil, nema hvað að upp úr þvottabalanum kemur flík sem ég hafði ekki séð í fleiri mánuði, Ikeasmekkurinn, þessi blái ljóti sem allir eiga, þið vitið þessi með ermunum.

Á tímabili þá gátum við ekki gefið Kristínu Hebu að borða nema hún væri með þennan smekk. Ef okkur var boðið í mat eða við fórum út að borða þá tókum við smekkinn góða með, og ég gekk meira að segja svo langt að fara með bróðir hans, ljóta appelsínugula smekkinn á leikskólann og bað vinsamlega um að hún væri sett í hann fyrir matmálstíma, slík subba var hún við matarborðið blessunin.

Nema hvað ég fór að hugsa hvað ég væri fegin að þurfa ekki lengur á smekknum að halda, að því tímabili sé lokið í okkar lífi, eftir að barnið lærði að hitta upp í sig.

Sennilega hefur kærastinn minn verið að þvo “botninn á þvottakörfunni”, þið vitið fötin sem maður notar aldrei en nennir ekki að henda né gefa þannig að þau liggja bara þar, og þess vegna dúkkaði hann upp blessaður.

Núna er dóttir okkar þriggja og hálfs árs, að ganga í gegnum einhverja erfiðleika sem ég á mjög erfitt með að átta mig á og bregðast við.

Hún hlýðir engu, notar dónaleg orð og bregst við öllu og engu með reiði áður óþekktri hjá 3,5 ára manneskju.

Mér líður smá eins og ég sé að reyna að halda 4 boltum á lofti þessa dagana, í námi og vinnu með barn og heimili, og er reyna að standa mína plikt í öllu og hef satt best að segja mjög litla þolinmæði fyrir þessari hegðun eða skeiði akkúrat núna.

Í gær þegar hún var gjörsamlega búin að mergsjúga mig allri orku og ég að verða verulega tæp, þegar mér verður hugsað til smekksins.

Einu sinni vaknaði ég 4x sinnum á hveri nóttu til að gefa henni að drekka.

Einu sinni vaknaði hún fyrir klukkan 5 alla morgna og ég mátti druslast á fætur og byrja daginn þá .

Og einu sinni tók hún upp á því að vilja ekkert borða heilu og hálfu vikurnar.

Bráðum get ég sagt og hálf hlegið af því að :

Einu sinni kallaði Kristín alla kúk og piss, gengdi engu og öskraði á okkur að minnsta tilefni.

Ég hlakka til þessa dags en þangað til þurfum við bara að reyna að sýna skilning og þolinmæði.

 

Anda inn og anda út, ekkert er komið til þess að vera, ekki einu sinni erfiðleikarnir.

 

 

 

 

 

 

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.