,,Ég ætla að verða stór eins og mamma” -45kg.

,,Ég ætla að verða stór eins og mamma” -45kg.

Ég hef lengi ætlað að setjast niður og skrifa um síðustu mánuði. En síðustu mánuði hafa orðið ansi miklar breytingar hjá mér bæði á líkama og sál.

Fyrir sléttu ári síðan tók ég þá ákvörðun að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum, ég var orðin 112kg. og líkamlegt ástand mitt var farið að há mér í daglegu lífi. Þessir sjálfsögðu hlutir eins og að leika með börnunum mínum og almenn hreyfing var eitthvað sem var orðið erfitt og líkaminn farinn að segja til sín með tilheyrandi þreytuverkjum, eins var bara ekki næg gleði til staðar í hjartanu og oft þungt yfir mér. Það var líka fyrir sléttu ári síðan sem dóttir mín þá að verða 3 ára sagði við mig ,,ég ætla að verða stór eins og mamma!”, það var eins og að fá blauta tusku í andlitið, á þessum tímapunkti vissi ég að eitthvað þyrfti að breytast. Það var ekki út af því hvernig ég leit út eða hvað ég var þung heldur hvaða áhirf þetta var að hafa á líkamlega og andlega heilsu. Þetta snýst alls ekki um hvernig maður lítur út, það eru fullt af konum í yfirþyngd sem eru alveg guðdómlega fallegar og líður ótrúlega vel en ég var bara ekki ein af þeim sem leið vel.
Ég fór að íhuga hvaða leiðir ég ætti að fara, hvort ég ætti að fara í enn einn megrunarkúrinn. Á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að ég vildi skoða hvort að magaermi væri eitthvað sem myndi henta mér, ég á frænkur og bekkjasystur sem höfðu farið þessa leið sem ég gat leitað til og fengið upplýsingar. Eftir þetta gerðust hlutirnir býsna hratt ég fór og hitti lækni sem heitir Hjörtur Gíslason sem útskýrði allt fyrir mér hvernig þetta virkaði, hvaða aðgerðir væru í boði og hvernig lífið væri eftir aðgerð. Ég tók mér smá tíma í að hugsa málið en eftir nokkra daga var ég búin að taka ákvörðun um að magaermi væri leiðin fyrir mig, ég fékk tíma í aðgerð í Malmö í Svíþjóð 29.október 2018.

27.október lögðum við mamma af stað til Malmö, það sem ég var heppin að mamma skyldi fara með mér þá gat ég verið róleg meðan Atli var heima með Marín Helgu sem var þá 8 mánaða og Önnu Hrafnhildi 3 ára og það var gott að vita af þeim heima í pabbafangi. Það breytist lítið að það er alltaf gott að hafa mömmu ef eitthvað er enda stendur hún eins og klettur við mann sama hvað. Ég var eiginlega ekki búin að átta mig á því hvað væri að fara að gerast fyrr en ég var lögst á bekkinn á klínikinni í Malmö og það átti að fara að svæfa mig, fyrsta hugsun sem rauk í gegnum hausinn var ,,nei fjandinn hvað er ég búin að koma mér útí, ætti ég að hætta við?” og svo sofnaði ég.
Ég vaknaði stuttu seinna á vöknun þar sem yndislegt fólk hugsaði um mig og hjálpaði mér svo inn á herbergi. Reglulega yfir daginn þurfti ég að ganga fram og til baka, æfa öndun og reyna að drekka vatn. Ég bjóst einhvern veginn við því að mér ætti eftir að líða miklu verr en mér gerði, auðvitað var ég aum og óglatt og kastaði aðeins upp fyrsta daginn en bjóst við að þetta yrði svo mikið meira eftir svona aðgerð.  Fólkið á Aleris klínikinni hugsaði mjög vel um mig þennan sólarhring sem ég var þar og Hjörtur duglegur að athuga með mann og sjá hvernig manni liði. Mér finnst skipta öllu máli að læknirinn sé duglegur að fylgjast með manni það róar mann töluvert, það er eitthvað sem Hjörtur gerir virkilega vel það er að hugsa vel um ”sjúklingana” sína.
En fyrir ykkur sem vita ekki hvað magaermi er en þá er fjarlægður um 80-90% af maganum sjálfum þannig að eftir verður 2 cm. breið ermi (erfitt að lýsa með orðum svo ég skelli inn mynd).Næstu dagar eftir aðgerð snérust um að labba um og koma niður réttu magni af vökva, mamma labbaði um allt með mér og passaði vel upp á sína. Á föstudeginum flugum við heim og við tók önnur vika af fljótandi fæði. Fyrstu 2 vikurnar er maður einungis á fljótandi fæði og passar sig að vera í undir 5% af sykri, þegar ég kom heim var maðurinn minn svo yndislegur að vera búin að útbúa fullt af súpum fyrir mig svo ég þurfti ekkert að pæla í því næstu dagana. Það er svo mikilvægt að eiga góða að sem styðja mann og hjálpa í einu og öllu og Atli gerir það og svo mikið meira en það. Ég viðurkenni að dagarnir á fljótandi voru orðnir ansi erfiðir í lokin en allt hafðist þetta. Svo tók við maukaða tímabilið sem var 2 vikur og að því loknu fór maður að prófa sig áfram með venjulegan mat. Ég hélt áfram að halda sykri í lágmarki og hélt mig algjörlega frá öllu brauði og pasta. Það er eitthvað sem ég geri enn, en leyfi mér að hámarki 1x í viku eitthvað brauð þá aðallega ef við erum með pizzakvöld fjölskyldan. Ég reyni að passa eins og ég get upp á sykurinn, ef mig dauðlangar í eitthvað sætt reyni ég að fá mér eitthvað sykurlaust eða fæ mér 1-2 súkkulaðimola. Það skiptir svo ótrúlega miklu máli að koma mataræðinu á rétt strik því ef þú gerir það ekki eftir svona aðgerð ferðu að öllum líkindum að þyngjast aftur eftir ca. 1 og 1/2 ár og getur auðveldlega komið þér í sama far aftur. Þetta er auðvitað stanslaus barátta en það sem öllu máli skiptir er að ef maður misstígur sig og ,,dettur í það” er bara mikilvægt að hrista það af sér og koma sér aftur á rétt ról.

(Mynd tekin á Krít í september 2018, mánuði fyrir aðgerð.)

Nú eru liðnir rúmlega 7 mánuðir frá aðgerð, á þessum tíma er ég farin úr 112kg. í 67kg. , það eru 45kg. farin af líkamanum mínum en sennilega fleiri hundruð kíló farin úr höfðinu á mér. Ég áttaði mig alls ekki á því hvað mér í raun var búið að líða illa síðustu ár fyrr en einhverju eftir aðgerð þegar lífið byrjaði allt í einu að verða eins og það var, eitthvað sem ég var löngu búin að gleyma. Það er mér svo dýrmætt að geta gefið börnunum mínum allra bestu útgáfuna af mömmu þeirra. Það að líta betur út er plúsinn, andleg og líkamleg heilsa er það sem öllu máli skiptir.

(Fyrri myndin tekin í Apríl 5 1/2 mánuði eftir aðgerð og seinni Á Krít mánuði fyrir aðgerð.)

Þetta er án efa sú allra besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir sjálfa mig og fjölskylduna mína, það verður auðvitað verkefni að passa að enda ekki í sama fari aftur og er það eitthvað sem ég ætla mér aldrei aftur í. Þetta hefur breytt lífi mínu svo mikið síðustu mánuði, næst á dagskrá er að finna mér hreyfingu sem hentar mér og fara að styrkja mig. Mikilvægt er að hugsa um þessa aðgerð með hjálpartæki en ekki töfralausn, það verður alltaf verkefni að passa upp á mataræði og er það eitthvað sem verður  og er ekki alltaf auðvelt. Einn dagur í einu!
(7 og 1/2 mánuði eftir aðgerð)

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.