Brjóstagjöf-minni væntingar

Brjóstagjöf-minni væntingar

Ég pældi mikið í brjóstagjöf þegar ég gekk með Önnu Hrafnhildi, fór á námskeið og las mér til. Þegar Anna svo fæddist gekk henni erfiðlega að taka brjóstið rétt, því fylgdu þessi dásamlegu sár og eymsli sem svo fór í sveppasýkingu. Á endanum benti ljósmóðirin mín mér á að prófa mexicohatt, þvílík himnasending sem þessi hattur var! Ég var samt reglulega minnt á að prófa svo smá saman að sleppa honum og gá hvort hún tæki þá brjóstið rétt. En það gekk ekki og ég hélt áfram að nota hattinn.

Þegar þetta ”vandamál” var úr sögunni byrjaði það næsta. Barnið vildi ekki drekka brjóst nema nánast bara ef ég lagðist niður með hana, sem var svoltið erfitt þegar við vorum einhverstaðar á ferðinni. Ef við vorum einhverstaðar annars staðar varð ég að standa og hossa henni á meðan að hún drakk, mjög spennandi að vera stödd á kaffihúsi út í bæ og þurfa að standa með brjóstið út í loftið labbandi fram og til baka svo að barnið myndi hætta að orga og drekka. Stundum þegar við vorum heima og hún vildi ekkert drekka varð ég að standa fyrir framan vaskinn með skrúfað frá vatninu að hossa henni svo hún myndi drekka.

Hún var ekki að þyngjast eins og hún átti að vera að gera og ekkert gekk að gefa henni pelann því hún vildi ekki sjá hann. Ég viðurkenni að þetta tók allt mjög á mömmuna og mér fannst ég vera að bregðast henni með því að vera ekki að gefa henni nóg að borða.

Nú þegar næsta barn er væntanlegt ætla ég að skrúfa væntingarnar hressilega niður, auðvitað vona ég að þetta gangi betur í þetta skipti en ef ekki þá er það bara þannig og ég tek á því. Ég ætla hinsvegar að vera búin að kaupa þennan blessaða hatt og eiga til vonar og vara ef allt stefnir þangað því þessi sár eru alveg hrikaleg. Og ef barnið vill ekki sjá brjóst þá verður bara keypt einhver dásamleg pelamaskína sem sér um þetta. Himinn og jörð farast svo sem ekki þó barnið vilji ekki brjóstið, ég vona bara að það verði auðveldara að gefa barninu að drekka/borða svo því líði betur en Önnu gerði. Vandamálin með Önnu voru eflaust tengd magamígreninu hennar, en þá veit ég að minnsta kosti hvað er í gangi ef sömu vandamál koma upp og get því fengið hjálp við því strax. Aðamálið er að ég ætla að reyna að slaka meira á yfir þessu í þetta skiptið og svo bara vona það besta.

 

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.