Áhyggjur ungrar konu á barneignaraldri – Jafnréttið

Áhyggjur ungrar konu á barneignaraldri – Jafnréttið

Í október missti ég fóstur. Fósturmissirinn er eflaust efni í aðra færslu því opin umræða vinkvenna minna um fósturmissi hjálpaði mér rosalega mikið í þessari lífsreynslu. En það er einmitt ástæðan fyrir því að við kærustuparið ákváðum að hafa það ekki sem „leyndó“ að ég hefði misst fóstur. En ég fann samt að það var ein hugsun sem lét mig vilja halda þessu leyndu. Það hljómar kannski spes árið 2017, en ég óttaðist um starfið mitt. Ég var að upplifa óttann við að vera sagt upp störfum hjá fyrirtækinu sem ég hef unnið hjá í sjö ár vegna þess að ég væri „kona á barneignaraldri“.

Fyrst að ég er að upplifa þessa tilfinningu eru alveg örugglega fleiri konur en ég sem fá þessa hugsun í gegnum hugann og þess vegna langar mig að deila þessu með ykkur. Hversu bjánalegt er að vera 30 ára gömul kona sem stendur sig vel í vinnunni og að vera hrædd um að verða sagt upp störfum, bara vegna þess að hún mun kannski, mögulega fara í 12 mánaða fæðingarorlof á næstu 10 árum?

Ég held að fyrsta skrefið í átt að jafnrétti á vinnumarkaði sé að líta í eigin barm og eyða svona úreltum hugsunarhætti út úr sínum eigin huga og ég ætla svo sannarlega að byrja þar. ..og ég er í raun byrjuð. Ég byrjaði á því þegar ég sagði vinnufélögum mínum frá því að ég hefði misst fóstur, því það er ekkert feimnismál að ég hafi misst það og heldur ekki að ég sé á barneignaaldri og langi mögulega einhverntíman í framtíðinni að reyna aftur.

Til að það komi einnig fram þá hef ég unnið á sama vinnustað í sjö ár, ég á eina dóttur og fór í langt og notalegt 15 mánaða fæðingarorlof eftir að ég eignaðist hana og vinnustaðurinn minn hefur ekki verið með neitt annað en með jákvætt viðmót þegar ég hef gengið í gegnum þetta, bæði að eignast barn og að missa fóstur. En áhyggjurnar eru þarna samt og þessi færsla er eitt skrefið í átt að breyta hugarfarinu mínu.

Megi það byrja hjá mér <3

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku