Að takast á við hármissi

Að takast á við hármissi

Þessi færsla er á persónulegu nótunum.

Þann 20. desember síðastliðin, greindist ég aðeins 36 ára gömul, með þrí-neikvætt krabbamein í hægra brjósti.
Eins og gefur að skilja hafa dagarnir, vikurnar og mánuðurnir síðan verið með öllu óskiljanlegir, upp og niður, út og suður, stór rússibani, harkalegur fellibylur, sturlaður hvirfilbylur og öll þau dramtísku og stóru myndlíkingar og lýsingarorð sem ég get komið upp með þessu…

Ég er nú búin að fara í aðgerð og láta fjarlægja æxlið mitt og þau meinvörp sem höfðu náð að dreyfa sér í eitil í holhönd. Þar með tel ég mig læknaða af sjúkdóm eitt: æxlið í brjóstinu á mér.
Nú stend ég í því að lækna mig af sjúkdóm tvö: að drepa allar mögulegar krabbameinsfrumur sem hafa náð að dreyfast eða myndast í líkamanum mínum. Það geri ég með því að fara í erfiða lyfjameðferð sem ég nú lokið tveimur gjöfum af sex. Þegar þeim öllum er síðan lokið mun ég fara í 15 geislameðferðir á svæðinu sem æxlið var.
Framhaldið er auðvitað óvíst, en ég stefni að sjálgsögðu bara að því að hafa þá lokið allri meðferð og fara í reglulegt eftirlit á 4-6 mánaða fresti næstu fimm árin.

Ég fékk strax að vita það á fyrsat fundi með skurðlækni eftir greiningu að ég myndi missa hárið. Fundurinn snérist um æxlið sem var að ráðast á líkama minn og éta upp frumurnar mínar. Æxlið sem, ef óáreitt, myndi dreyfa sér um líkama minn og draga mig til dauða. En læknirinn, sem var að útskýra fyrir mér hvernig hann ætlaði að skera burt þetta æxli, tók sér tíma til að segja mér að ég myndi missa hárið. Og hann gerði það með ágætis áherslu meira að segja. Ég brotnaði þar niður (ekki í fyrsta sinn, en í fyrsta sinn á þessum fundi) og hváði. “Ertu alveg viss? Gerist það alltaf? Mun ég missa allt hárið?!” Hann tók sér áfram tíma til að staldra við þetta, leyfa mér að gráta og segja mér ákveðið að já, ég myndi missa hárið og mjög fljótt eftir að lyfjameðferð hæfist. Þegar ég áttaði mig á því að ég væri að gráta hárið mitt, á fundi sem snérist um hvernig fjarlægja ætti ógnandi æxli úr líkama mínum, baðst ég afsökunar á því að ég væri svona “shallow”. Hann sagði mér að ég þyrfti ekki að biðjast afsökunar. Við myndum flest allar bregðast svona við á þessum stað viðtalsins..

Ég spurði hann þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að vita hversu lélegt það væri í stóra samhenginu, ítrekað hvort hann væri alveg viss um að ég myndi missa hárið. Hvort hann væri alveg, alveg viss um það og hvort að það væri ekki eitthvað sem að hann gæti gert í því. Hann sagði mér að það væri já öruggt og nei það væri ekkert sem hann gæti gert, því miður.. Á sama tíma spurði maðurinn minn mjög mikilvægar og góðar spurningar sem var nauðsynlegt að fá svör við.
Ég sat bara og grét. Hárið á mér ásamt öðrum upplýsingum sem ég fékk í þessu, en mjög mikið hárið á mér bara.. Ótrúlega skrítið hvað það skiptir máli að hárið fari þegar lífi manns er ógnað. En, enn hef ég ekki hitt neina konu sem tók ekki þetta áfall við greininguna.

Ég hef alltaf verið með sítt og þykkt hár sem hefur vakið athygli þar sem ég er og hárið á mér verið mjög stór partur af minni sjálfsmynd. Í rauninni, núna þegar það er farið gerir ég mér grein fyrir því að það var of stór partyr af minni sjálfsmynd. Ég var “háð” því að það myndi bera af og vera áberandi til að ég gæti falið sjáfa mig á bak við það. Falið andlitið á bak við hárið einhvernveginn. Draga athygli frá andltinu á hárið.

Èg pældi mikið í því hvernig èg gæti gert þessa staðreynd, hámissinn, bærilegri fyrir mèr. Hvernig èg gæti nýtt það besta úr þessu og hvernig èg gæti tekið stjórnina á þessum aðstæðum. 
Èg ákvað því mjög fljótlega að ÈG myndi stjórna því að mín sídd og mitt hár myndi breytast. ÈG tæki líka stjórnina á því hversu hratt það myndi gerast og hvenær það myndi gerast. Með þessu móti er það ÈG sem er við stjórnina og èg ræð hversu stutt það verður og hvenær það fer síðan allt!

Ég fór á Hárbankann á Reyðarfirði og bað Heklu um að koma í það ferli með mér að stytta það um fyrsta skrefið. Hekla hughreysti mig mjög mikið og talaði mikið við mig á meðan á þessu stóð. Ég prófaði sídd sem mig hefur alltaf fundist mjög flott. Sídd sem èg hefði aldrei klippt á mig því að ég var alltaf með síða hárið mitt. Ég meina, hárið fer í þessa sídd þegar það kemur aftur. Það er gott að vita út í hvað èg er að fara þegar hárið kemur aftur.


Þeir segja að hárið fari 15-21 dögum eftir fyrstu lyfjagjöf. Það var of sveigjanlegt fyrir mig. Of óráðið og óvíst. Hárið varð strax líflaust eftir fyrstu lyfjameðferð. Líflaust og hart einhvernvegin. Það var ekki hreint eftir sturtu. Ég var kvíðin að þvo það og kvíðin að þurrka það. Ég var kvíðin að greiða það, blása og slètta. Ég þorði ekki að setja í það teygju því èg var kvíðin að taka hana úr. Ég var kvíðin að vakna á morgnana og orðin yfirhöfuð kvíðin að koma við það. Ég vissi aldrei hvenær það myndi deyja. Hvenær það myndi detta af. Þetta var farið að taka of mikla orku frá mèr. 
Svo èg ákvað bara að taka það sjálf. Taka þetta í mínar hendur. 

Fólkið mitt var með mèr (og systir mín á FaceTime). Allir rökuðu eitthvað og allir skálaðu í kampavín (enda ekki sèns að èg hefði gert þetta án áfengis í líkamanum mínum). 

Þegar fór að nálgast lyfjagjöf númer tvö var ég farin að geta tekið hárið mjög auðveldlega af og það var farið að detta af. Allt í einu var ég komin með litla blettaskalla. Það var því ekkert annað í stöðunni en að taka enn meira. Ég fór á hárgreiðslustofuna og bað um það yrði tekið í stystu sídd með rakvélinni.

Áfallið við að missa hárið varð minna bæði fyrir mig og fjölskylduna mína með því að gera þetta í þessum skrefum. Eldri dóttir minni, 12 ára, fannst þetta skrítið í nokkrar sekúndur en þá var það búið. Henni finnst ég bara virkilega töff svona, hefur orð á því hvað ég sé með stór augu og er virkilega stolt af mér að ganga um með skallann án þess að fela hann. Litla manninum mínum, 2 ára, hefur ekki þótt nein skref í þessu ferli í raun merkileg. Fyrst þegar við rökuðum mig sagði hann “mamma, ka e hájið þitt?” og síðan hefur hann aldrei minnst á þetta aftur. Það er merkilegt að upplifa í raun hvernig þau sjá okkur. Hann skilgeinir mig, mömmu sína, ekki sem hárið mitt. Hann horfir bara á mig og sér augun mín, andlitið mitt, heyrir röddina mína og finnur lyktina mína. Hann sér bara mig.

Mèr er kalt á hausnum. Èg er mjög berskjölduð. Èg fæ gæsahúð á kollinn. Èg sèst öll. Allt af mèr. Það er mikið af skinni og ég veit ekki hvar ég á að hætta þegar ég ber á mig meik og púður. Èg get hvergi falið mig. Get ekki falið sjálfa mig á bak við neitt. Þar er bara öll ég.
En það er ögrunin sem èg er að læra á. Hèr er èg. Öll. Og ekki hárið mitt! 

Ég hef sagt opið frá ferlinu mínu með krabbamein eftir að ég greindist á instagram. Endilega kíkið við þar!

Facebook Comments
Linda Sæberg

Linda er 36 ára gömul, unnusta og tveggja barna móðir, með gráður í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Hún er tilfinninganæmt fiðrildi sem veit ekki hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór en rekur verslunina Unalome ásamt öðru. Stundar jóga og hefur miklar unun af andlegum málefnum. Elskar að ferðast, skapa og njóta, gleðst yfir góðu kaffi og súkkulaði og er interior elskandi.