26 ára gamli menntaskólaneminn!

26 ára gamli menntaskólaneminn!

 

 

Ég byrjaði í menntaskóla í haust.

 

Eða þið vitið, byrjaði aftur, ég var “að sjálfsögðu” búin að fara áður, þegar ég var unglingur.

Það þykir nefnilega sjálfsagt að allir 16 ára gamlir krakkar fari beinustu leið í menntaskóla og helst þaðan beint í Háskóla.

Það er uppskriftin af velgengni og þeir sem ekki ljúka að minnsta kosti menntaskóla
“á réttum tíma”, þeim þykir hafa mistekist.

Þegar ég var 16 ára hóf ég göngu í Menntaskólanum á Akureyri, ég hafði lagt talsvert á mig til þess að komast inn í skólann en fann það strax að þetta átti ekki við mig.

Eftir veturinn á Akureyri flutti ég aftur heim til Húsavíkur og innritaði mig í Framhaldsskólann á Húsavík um veturinn og þar var alveg sama sagan.

Ég hafði engan metnað,áhuga né löngun til þess að vera í skóla.

Þann vetur veiktist ég mikið andlega, og var full af kvíða og þunglyndi og gat bara ekki skilið af hverju ég gat ekki bara drullast til að standa mig í námi eins og mér fannst allir aðrir vera að gera.

Ég eyddi bróðurpart veturs í rúminu. Ég var búin að dragast mikið aftur úr og fannst því eins og ég gæti ekki mætt og fékk svo samviskubit yfir því að hafa ekki mætt og dregist enn meira aftur úr.

Vítahringur sem ég sá enga leið útúr.

Þarna var ég í sambúð með kærastanum mínum, sem ég er reyndar enn í dag(vel gert ég) og hann var hringjandi mig inn veika 3-4 daga vikunnar og ég skammaðist mín alveg hræðilega mikið fyrir að vera svona mikill aumingji, og svona ung í blóma lífsins, eða ekki!!

Ég laug svo bara að mömmu og pabba að jú ég væri alveg að mæta og það gengi bara vel, og fékk svo enn meira samviskubit yfir því að vera í þokkabót að ljúga að foreldrum mínum.

Um sumarið fór ég svo að vinna eins og flestir gera og leið strax mun betur. Þegar ágúst nálgaðist byrjaði kvíðinn að krauma inn í mér og ég fann að í skóla um haustið gæti ég bara ekki farið!

 

Hvað gat ég þá gert? 18 ára gömul, með allt í steik og fárveik andlega.

Mér hafði aldrei verið sérstaklega um börn gefið en systir mín hafði farið sem Au pair og elskaði það og ég ákvað að gera það sama og á innan við þremur vikum var ég búin að finna fjölskyldu og bóka flugmiða alla leið í Toskana héraðið á Ítaíu.

Ég dvaldi í smábænum (á ítalskan mælikvarða) Arezzo í þrjá mánuði og guð minn góður hvað það var góð ákvörðun.

Veðrið var dásamlegt, landslagið ólýsanlegt og frelsið mér á þeim tíma lífsnauðsynlegt.

Ég kom heim í Nóvember eftir dvölina á Ítalíu og hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að fara að taka mér fyrir hendur en fékk svo vinnu í fiski í gegnum fjölskyldutengsl.

Það vakna fyrir klukkan 6 á mánudagsmorgni í frosti í Janúar til þess að standa í kulda við færiband að gera c.a sama handtakið til 15:30 er einhver sá mesti og besti skóli sem ég hef sótt.

Ég tók út heilmikinn þroska í fiskinum og kynntist þar fólki sem mér mun ávallt koma til með að þykja vænt um.

Planið var að vinna þar í örfáa mánuði á meðan ég fyndi eitthvað betra en mér líkaði bara svo vel að ég endaði með því að vinna þar í einhver 4 ár með hléum.

Núna er ég 26 ára gömul.

Ég hef ferðast til hátt í 30 landa og með því öðlast ómetanlega reynslu og minningar

Lært að kafa og komist á návígi við hákarl í Tælandi

Farið með rútu um einn hættulegasta fjallaveg heims og séð sólina rísa í Himalayjafjöllunum

Fylgst með trúarathöfn á Bali

Labbað um 130 manna fjallaþorp í Swiss, séð skakka turninn í Pisa, drukkið kokteil á Rockefeller Plaza í New york

Ég bjó til (ekki hjálparlaust svosem), gekk með og fæddi barn sem ég elska meira en lífið sjálft

Og ég bý í 180 fermetra íbúð smíðaðri af kærastanum mínum, hannaðri af okkur , fullri og fallegum og verðmætum hlutum sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina.

 

Fyrst núna er ég tilbúin og virkilega langar til þess að mennta mig. Á mínum forsendum.

Mér mistókst ekkert þrátt fyrir að hafa ekki lokið stúdentsprófi tvítug.

Ég var bara að gera aðra, alls ekki síður merkilega hluti.

Þetta var rétta leiðin fyrir mig!

Það eru ekki allir eins og því passa ekki allir í sama boxið.

Það er aldrei of seint að gera eitthvað sem manni langar til.

Hvort sem það er að læra að kafa í Tælandi eða ljúka stúdentsprófi!

 

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.