1 árs lítill ljúfur – uppskrift af geggjuðu hrísgrjónasalati!

1 árs lítill ljúfur – uppskrift af geggjuðu hrísgrjónasalati!

Um miðjan mars héldum við 1 árs afmælisveislu. Mér finnst mjög gaman að hafa eitthvað þema í afmælum hjá krökkunum og vissulega leggur maður mismikið púður í skreytingar og annað. Að þessu sinni var ég með ljónaköku og dýraþema – enda þessi 1 árs mikill áhugamaður um dýrin.

Einfalt er oft best en ég var mjög ánægð með þessa ljónaköku sem ég gerði. Ég var með súkkulaðiköku með súkkulaðikremi og smjörkrem utan á. Ég notaði sprautustút nr. 822 frá Ateco til að gera makkann á ljónið og bjó svo til andlitið og eyrun úr sykurmassa. Ég keypti grænan dúk og servéttur, átti þennan fína plöntulöber og glerglösin nota ég í hverju einasta barnaafmæli hjá mér en þau voru undan eftirréttum sem keypt voru í Costco! Svo ótrúlega passleg í litlar hendur. Mér fannst svo tilvalið að nota alls konar leikfangadýr til að skreyta borðið með.

Afmælið heppnaðist ótrúlega vel og afmælisbarnið steinsofnaði eftir afmælið enda búið að vera mikið fjör. Mig langaði svo að deila með ykkur uppskrift af hrísgrjónasalati sem sló algjörlega í gegn í afmælinu. Því miður gleymdi ég að smella mynd af hlaðborðinu og salatinu góða en uppskriftin fær samt sem áður að fljóta með í þessari færslu.

Hrísgrjónasalat með kjúkling & sinnepsósa

Hrísgrjónasalat með kjúkling
1 1/2 rauð paprika
1 1/2 dl mais baunir
2 msk karrý
1 msk Aromat
1 msk hvítlaukskrydd
6 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
2 pakkar Mild Curry hrísgrjón (ég kaupi frá Batchelors)
1 kjúklingur – eldaður og rifinn niður í litla bita

Paprika og kjúklingur skorinn í bita, hrísgrjónin soðin eftir leiðbeiningum. Öllu hrært saman í skál og blandað vel saman.

Sinnepsósa
2 msk majónes
1 msk sýrður rjómi
3 msk hunang
5 msk sætt sinnep
1 msk karrý
1/2-1 msk Aromat

Borið fram með ristuðu brauði og sinnepsósunni.

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.