Vikumatseðillinn 5. – 11. desember

Vikumatseðillinn 5. – 11. desember

Undanfarið hef ég gert ótal tilraunir til að gera vikumatseðil fyrir okkur fjölskylduna. Tilgangurinn er að fækka ferðum í búðina og nýta það sem er til heima. Það endar samt yfirleitt með því að ég fer eftir 1-2 dögum af fyrir fram ákveðna planinu og rest fer í pantaða pizzu og aðrar „skyndilausnir“ til að komast hjá því að elda.

Ég ætla að gera enn eina tilraunina til að setja saman matseðil og hafa fókusinn á því að vera með fljótlega rétti á boðstólnum í miðri viku en hafa réttina flóknari um helgina því þá er aðeins meiri tími fyrir eldamennsku.

Mánudagur: Plokkfiskur og rúgbrauð. Ég kann ekki að útbúa hann sjálf frá grunni eins og mamma gerir, svo ég kaupi plokkfiskinn frá Grími kokk og hita í potti eða eldföstu móti. Mér finnst hann ótrúlega bragðgóður og ég ber hann fram með rúgbrauði.

Þriðjudagur: Þriðjudagstilboð á Dominos

Miðvikudagur: Fljótlegur kjúklingaréttur. Sætar kartöflur settar í botninn á eldföstu móti, kjúklingabitum raðað ofaná, því næst er rauðu pestó dreift yfir ásamt fetaosti og spínati. (ég sleppi yfirleitt spínatinu). Hitað í ofni þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn og kartöflurnar orðnar mjúkar.

Fimmtudagur: Austurlensk fiskisúpa frá Fylgifiskum, sjá hér.

vikumatsedill

Föstudagur: Ég ætla að halda föstudeginum opnum í eitthvað óvænt, við eldum sjaldnast á föstudögum og dettum yfirleitt í að grípa eitthvað á leiðinni heim eins og Pad thai á Yummi Yummi eða eggjanúðlur á Núðluhúsinu.

Laugardagur: Kjúklingaborgari. Kjúklingabringa marineruð í BBQ sósu og grilluð eða hituð í ofni. Brauðið sem gott er að nota með heitir Polarbröd Fröig og fæst td. í Bónus. Á borgarann set ég heimatilbúið pestó*, hvítlauksristaða sveppi**, karamellaðan lauk*** og ber fram með káli, tómötum, gúrku og papriku eftir því hvað er til í ísskápnum eða við erum í stuði fyrir.

*Heimatilbúið pestó – 1 krukka sólþurrkaðir tómatar, ca. 75 gr. Parmesan ostur, 1-2 rif hvítlaukur ásamt ólífuolíu skellt í matvinnsluvél og maukað fínt.

**Hvítlauskristaðir sveppir – Smjör brætt á pönnu, 1 rif af hvítlauk pressað og sett saman við smjörið og að lokum niðursneiddir sveppir settir saman við og þeir léttsteiktir.

***Karamellaður laukur – Smjör brætt á pönnu, niðurskorinn laukur settur á pönnuna og steiktur þangað til hann er orðinn mjúkur, 1-2 bollar sykur og 1 bolli vatn sett saman við, suðan látin koma upp og svo kælt í pönnunni/pottinum.

Sunnudagur:
Heill kjúklingur ásamt hrísgrjónum, rjómalagaðri sveppasósu og góðu salati.

undirskrift

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku