Vikumatseðillinn 21.-27.nóvember

Vikumatseðillinn 21.-27.nóvember

Gulla reið á vaðið með að birta vikumatseðil hér á blogginu og ég tók við keflinu og ætla að gefa ykkur hugmyndir af matseðli fyrir komandi viku. Ég legg yfirleitt mest uppúr því að maturinn sé fljótlegur og einfaldur, sérstaklega fyrir virku dagana!

Mánudagur:
Steiktur fiskur á pönnu m/pestósósu, hýðishrísgrjónum og fersku salati.
Aðferð: Hvítur fiskur að eigin vali steiktur uppúr olíu og smá smjörklípu, þegar fiskurinn er að steikjast á seinni hliðinni er 1dós af grænu pestói og peli af kókosrjóma (eða venjulegum) bætt útí og leyft að malla í 5mínútur.
Áður en byrjað er á fiskinum er gott að koma hýðisgrjónunum í suðu þar sem þau taka lengri tíma en fiskurinn 🙂

Þriðjudagur:
Spagetti-lasagna! Hakk steikt á pönnu og spagetti soðið í potti, spagetti-inu bætt útá pönnuna þegar það er tilbúið, 1dós af pastasósu, 1msk maukaður hvítlaukur,salt og pipar líka og leyft að sjóðast saman í 1-2 mínútur. Allri blöndunni helt í eldfast mót og rifnum osti stráð yfir!
Dásamlega gott með fersku salati og hvítlauksbrauði

Miðvikurdagur:
Pizzakvöld! Miðvikudagur er uppáhalds leiðinlegi dagurinn í vikunni, langt síðan það var helgarfrí og ennþá lengra í næsta (eða virðist vera) og þá er ekkert betra en að baka sér pizzu og jafnvel fá sér hvítvínsglas með 🙂
Ég kaupi oftast tilbúið brauð og svo er bara að leika sér með áleggið!

Fimmtudagur:
Afgangar,boost og ávextir. Mér finnst upplagt að nýta fimmtudaga til að tína til það sem er í ísskápnum og hreinsa! Ég hef ofnæmi fyrir að henda mat og stundum verða til allskonar afgangaréttir sem er aldrei hægt að endurtaka og oftast tæmist ísskápurinn af afgöngum þetta kvöld. Ég geri oft boost ef það er lítið til 🙂

Föstudagur:
Kjúklinga-steikarloka með sætkartöflu frönskum. Að kaupa nýtt baguette brauð í bakaríinu, steikja sveppi-rauðlauk og papriku, græja piparosta-rjómasósu og nýta síðan það grænmeti sem til er og búa til geggjaða samloku er svo mikil snilld! Ég tek svo letina á þetta og kaupi mér tilbúnar sætar franskar á veitingastað hérna á Húsavík. Algjör eðall!

Laugardagur:
Lamb og bernaise! Þetta kombó bara klikkar ekki, aldrei! Það er ofboðslega oft hægt að kaupa eðalkjöt á “Allt nýtt” tilboðunum í verslunum og fyrir síðustu helgi keypti ég lamba-prime á 70% afslætti og fékk steik fyrir 4 á 700kr!
Heimagerð bernaise er það auðveldasta í heimi og hér kemur mín grunnuppskrift:
1 eggjarauða á móti 100gr af smjöri
Eggjarauður þeyttar alveg í botn, smjör brætt og þegar rauðurnar eru klárar er smjörinu hellt MJÖG varlega útí. Því næst er bernaise-essence bætt útí (ca 1tsk fyrir 1rauðu), estragoni, salti og pipar. Ef ég er að elda steik þá enda ég á að setja 1-2msk af kjötsoðinu útí..og það er mitt leyndarmál (ekki lengur greinilega samt) að bestu bernaise sósu í heimi..
Ofnsteiktar kartöflur og grænmeti sem meðlæti og glas af rauðu 🙂

Sunnudagur:
Þessi fiskréttur er eins og veislumatur og dásamlegt að fá sér fisk eftir sukk helgarinnar og kjötátið! Hann kemur frá Eldhúsperlum og uppskriftina má nálgast HÉR

Ég nota þessa dásamlegu hönnun til að skrifa mitt matarplan á og þá er aldrei vesen eða höfuðverkur að velja hvað á að vera í kvöldmat!

rammagull

Vonandi fenguð þið einhverjar hugmyndir af kvöldmat sem hentar ykkur 🙂

undirskriftasta

forsíðumynd: www.ljufmeti.com

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.