Vikumatseðillinn: 16.-22.október

Vikumatseðillinn: 16.-22.október

Ný vika þýðir bara eitt! Nýr vikumatseðill!
Þegar ég set saman svona seðil þá reyni ég að hafa matinn frekar fljótlegann (sérstaklega fyrir virku dagana), einfaldann og raða dögunum þannig saman að ég geti nýtt hráefni sem ég kaupi í fleiri en einn rétt.
Það er alltaf einn afgangadagur hjá okkur, stundum þýðir það bara akkúrat það að við eigum afganga af réttum frá því fyrr í vikunni eða þá að ég tek saman þau hráefni sem til eru í ísskápnum og bý til eitthvað úr því!

 

Mánudagur: 
Grilluð bleikja, steikt kartöflusmælki, köld sósa og ferskt salat!
Þetta gæti ekki verið einfaldara að útbúa. Byrja á að sjóða kartöflur í potti, ég nota smælkið (pínulitlar kartöflur) og á meðan þær sjóða sker ég niður grænmeti í salat, hræri saman sýrðum rjóma og kryddjurtum (elska td graslauk,salt og pipar) og undirbý fiskinn.
Þegar kartöflurnar eru soðnar þerra ég þær og skelli beint á heita pönnu með olíu. Ég nota síðan George Forman grillið mitt fyrir fiskinn og það tekur ekki nema 3-4mínútur að grilla bleikjuflök! Til að fá ekki fiskilykt á grillið set ég bökunarpappír bæði undir og yfir fiskinn. Þegar fiskurinn er klár ættu kartöflurnar að vera steiktar líka!
Verði ykkur að góðu.

Þriðjudagur:
Heill kjúklingur, sætar kartöflur, ferskt salsa og salat!
Kjúklingurinn og kartöflurnar fara á sama tíma inní ofn og malla þar í amk klukkustund. Ég sker kartöflurnar í frekar stóra bita, set örlítið af olíu ásamt salti í eldfast mót og hræri reglulega í.
Kjúklinginn krydda ég með Best á kjúklinginn kryddi.
Ferskt salsa: rauðlaukur,paprika,gúrka og mangó er allt skorið mjög smátt niður og sett í skál. 1 lítil dós af maukuðum tómötum er bætt útí og hrært saman við. Kryddað til með salti og pipar!

Miðvikudagur:
Kjúklingasúpa!
1 rauðlaukur og 1/2 paprika skorin og steikt í potti ásamt olíu þar til grænmetið er orðið mjúkt. 1 líter af vatni bætt í pottinn ásamt 1 kjúklingakrafts tening og 3matskeiðum af tómatpúrru, þetta er látið malla saman í uþb 10mínútur. 1 dós af kókosmjólk, 1msk af tacokryddi ásamt afgangi af sætum kartöflum og kjúlla bætt í pottinn og látið sjóða á vægum hita í nokkrar mínútur.
Með súpunni býð ég uppá sýrðann rjóma og gróft hrökkbrauð sem er upplagt að setja útí súpuna ásamt rifnum osti!

Fimmtudagur:
Afgangadagur/Boost dagur!Á þessum degi eru afgangar nýttir en ef vikan raðast eins og þessi þar sem kjúklingaafgangur er nýttur í súpu og sennilega ekki mjög mikið um afganga þá geri ég yfirleitt boost og steiki jafnvel egg á pönnu og hef með ásamt hrökkbrauði.
Þetta boost er í uppáhaldi hjá mér og tekur ekki nokkra stund að gera!
HÉR getið þið svo fundið uppskrift af ótrúlega góðu og næringarríku brauði til að hafa með

Föstudagur:
Pizzakvöld!
Það er óskrifuð regla hjá okkur að hafa pizzu á föstudagskvöldum. Hvort sem að hún er heimatilbúin eða keypt finnst mér alltaf jafn notalegt að enda vinnuvikuna á pizzu 🙂
HÉR er uppskrift af pizzadeigi frá Sólveigu sem klikkar bara ekki!

Laugardagur:
Fiskitortilla!
Hljómar einkennilega ég veit en ég skora á ykkur að prófa! Í staðin fyrir að hafa hefðbundið hakk eða kjúkling í vefjunni að skipta kjötinu út fyrir fisk, ég nota mikið bleikju, og prófa. Kemur ótrúlega vel út og skemmtileg leið til að auka fiskneysluna.

Sunnudagur:
Steikarloka!
Ég elska fátt meira en góða steikarloku með bernaise sósu og steiktum sveppum.
Þunnt skorið nautakjöt, smörsteiktir sveppir og rauðlaukur með heimatilbúinni bernaise sósu og fersku salati. Toppað með glasi af góðu léttvíni!

 

Að lokum langar mig að deila með ykkur mynd af grænmetisdagatalinu en á þessari mynd getið þið séð hvaða grænmetistegundir eru ferskastar hverju sinni og vonandi hjálpað ykkur við valið á hvaða grænmeti þið kaupið í næstu búðarferð!

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.