Vikumatseðillinn 13.-19.mars

Vikumatseðillinn 13.-19.mars

Eins og áður þegar ég hef birt vikumatseðil þá reyni ég yfirleitt að miða við að hann sé frekar fljótlegur í framkvæmd og hægt að nýta afganga, bæði til að spara og minnka matarsóun!

Mánudagur:

Heill kjúklingur með sætum kartöflum, piparostasósu og fersku salati!
Algjör klassík sem er auðvelt að undirbúa og hægt að sinna ýmsu öðru á meðan kjötið og kartöflurnar eru í ofninum.

Þriðjudagur:

Einfalt kjúklingasalat!
Þetta salat geri ég oft og mjög einfalt að skipta einstökum hráefnum út fyrir önnur og nota afganga og grænmeti sem til er.
Kjúklingur rifinn niður, pastaskrúfur, rifinn piparostur og salat að eigin vali! Gæti ekki verið einfaldara og upplagt að bjóða uppá brauð með.
Miðvikudagur:
Boost og heimabakað hafrabrauð!
Í miðri viku hef ég oftast eitthvað létt á matseðlinum og get þá nýtt afganga frá dögunum áður ef einhverjir eru.
Uppskriftina af brauðinu má finna HÉR en það er ótrúlega auðvelt og mjög bragðgott.

 

Fimmtudagur:
Pestófiskur í ofni!
Hvítur fiskur settur í eldfast mót, rauðu pestói smurt á fiskinn og þar ofan á rauðlaukur og konfektómatar. Rétt áður en fiskurinn er klár er kókosflögum stráð yfir. Borið fram með hrísgrjónum og/eða fersku salati!

Föstudagur:
Pizzakvöld! Það er hefð á okkar heimili að á föstudögum er borðuð pizza, hvort sem að hún er pöntuð eða heimabökuð!

Laugardagur:
Tortilla með nautahakki!
Ríkharð Valur sonur minn elskar tortilla og er farinn að velja sér sjálfur í sína vefju og þykir gaman að borða það sem hann “gerir”.
Auðveldara gæti það ekki verið! Steikja hakk á pönnu og skera niður það grænmeti sem fjölskyldan vill. Ég nýti oft tækifærið með svona mat að steikja grænmeti sem er á síðasta séns og hef svo nýrra grænmeti ferskt með.

Sunnudagur:
Steikarloka!
Ég elska fátt meira en góða steikarloku með bernaise sósu og steiktum sveppum.
Þunnt skorið nautakjöt, smörsteiktir sveppir og rauðlaukur með heimatilbúinni bernaise sósu og fersku salati. Toppað með glasi af góðu léttvíni!

Til að fá fleiri hugmynd af vikumatseðli mæli ég með að skoða HÉR

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.