Vikumatseðill fyrir vikuna 12. – 18. desember

Vikumatseðill fyrir vikuna 12. – 18. desember

Þá er komið að mér að birta vikumatseðil. Hann kemur að vísu inn einum degi seinna en áætlað var en ég hef aldrei verið þekkt fyrir að vera tímanlega með neitt og betra er seint en aldrei!

Mánudagur:

Við Kristín skárum út laufabrauð í dag með fjölskyldunni og Davíð var að vinna til 18, því gafst ekki mikill tími til eldamennsku. Við vorum samt öll svöng og til í eitthvað gott og þá finnst mér snilld að kaupa tilbúinn grillaðan kjúkling í Nettó, ég ber alltaf sama meðlætið fram með honum en nennti að vísu ekki að gera kartöflumús í þetta sinn.

Grillaður kjúklingur, gul kjúklingahrísgrjón, picknick og besta sósa í heimi.

Besta kjúklingasósa í heimi (uppskrift af vefsíðunni www.ljufmeti.com):

1 peli rjómi

1/2 dós sýrður rjómi

1-2 kjúklingateningar (ég nota 2)

hvítur pipar,soya sósa og rifsberjahlaup eftir smekk

Þykkja með maizena ef þarf

Ég skora á ykkur að prófa þessa, Davíð nánast sleikir pottinn eftir matinn!

Þriðjudagur:

Á þriðjudögum og fimmtudögum vinn ég til 18 og þá er alltaf eitthvað auðvelt í matinn, oft boozt og flatbrauð t.d Ég nota yfirleitt skyr, abmjólk, haframjöl, frosna ávexti og hnetusmjör í boozt, hnetusmjörið gerir það þykkt og “creamy”, það er algjört lykilatriði að setja hnetusmjör!

Miðvikudagur:

Ég birti einu sinni uppskrift af ritzkex-kjötbollum á Ynju-snappinu við góðar undirtektir og hugsa að þær verði fyrir valinu á miðvikudaginn.

Ritzkex kjötbollur:

500 gr hakk

1 poki ritzkex barið en ekki mulið, samt með kjöthamri

1/2 poki sveppasúpa

1/2 poki púrrulaukssúpa

1 egg

Þessu er blandað saman með höndunum og mótað í miðlungs stórar bollur og steikt á pönnu þar til tilbúið, borið fram með súrsætri sósu og hrísgrjónum.

Fimmtudagur:

Föstudagspizzan hefur færst yfir á fimmtudagana eftir að ég fór að vinna fram eftir á fimmtudögum og því gríp ég yfirleitt pizzu með mér heim á fimmtudagskvöldum.

Föstudagur:

Á föstudaginn ætlum við Ásta að elda saman og bjóða mönnunum okkar upp á þriggja rétta máltíð og með því.

Laugardagur:

Það er vandræðalega langt síðan ég eldaði fisk síðast, en ég ætla að bæta það upp með því að elda fiskisúpu á laugardaginn. Uppskriftin kemur upprunalega frá Guðrúnu Veigu en ég hef aðeins breytt henni að mínum smekki.

Fiskisúpa með piparosti:

paprika

gulrætur

sætar kartöflur

púrrulaukur

Allt þetta er steikt upp úr olíu í potti.

Einum lítra af vatni er bætt saman við ásamt grænmetisteningi og fiskiteningi.

Einn piparostur er skorinn í teninga og bætt út í ásamt rjómaosti með kryddjurtum (eins og ég sýndi á snapchat um daginn nenni ég ekki að bræða svona osta og set þá frekar í blandarann með smá vatni).

Þegar súpan er búin að malla aðeins og kartöflurnar orðnar mjúkar þá tek ég pottinn af hellunni og bæti fiskinum út í og læt standa í nokkrar mínútur, ég nota þorskhnakka og bleikju.

Sunnudagur:

Kótilettur í raspi með miklu smjöri, grænar baunir, kartöflur og svo lykilatriðið, rabarbarasulta!! Þetta er með því betra sem ég fæ og yfirleitt býð ég upp á ískalt appelsín með þessu, það toppar matinn!

Mér finnst gaman að elda og er mikill matgæðingur og elda helst heitan mat lang flesta daga vikunnar.

Vonandi getur einhver nýtt sér þessar hugmyndir!

ynjur-undirskrift

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.