Vikumatseðill fyrir 23.- 29. janúar

Vikumatseðill fyrir 23.- 29. janúar

Mánudagur – Fiskréttur

Mér finnst voða gott að vera með fisk í matinn á mánudögum. Fiskréttir finnst mér alltaf skemmtilegir og yfirleitt eru þeir mjög einfaldir og bragðgóðir. Þessi fiskréttur er einfaldur og mér finnst best að bera hann fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Fiskur í mangó chutney og karrý

700 gr fiskur (hef prófað bæði að nota lúðu og þorsk)

1 krukka mango chutney

2 tsk karrý

2 msk kóríander

2 hvítlauksgeirar

grænmetiskraftur

300 ml matreiðslurjómi

Fiskurinn hreinsaður og skorinn í jafna bita. Magno chutney, karrý og matreiðslurjómi sett í pott og hitað. Hvítlaukurinn pressaður og kóríander saxað niður og bætt út í. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn í 1 mín á hvorri hlið. Kryddið með salt og pipar. Setjið fiskinn í eldfast mót og hellið sósunni yfir. Eldið í 10-12 mínútur við 200°C.


Þriðjudagur – Píta með hakki og grænmeti

Hver elskar ekki fljótlega rétti. Píta með hakki og grænmeti rennur alltaf ljúft niður hjá mér og mínum.


Miðvikudagur – Pasta í rjómaostsósu

Uppáhalds pastategundin mín er tagliatelle og mér finnst voðalega gott að elda svoleiðis pasta og baða það upp úr rjómaostasósu. Ég er frekar mikill dassari þegar kemur að eldamennsku en ég ætla að reyna að deila með ykkur uppskriftinni af pastaréttinum sem ég geri.

1 dós sveppasmurostur

300 ml matreiðslurjómi (eða mjólk)

hálfur púrrulaukur

2 hvítlauksgeirar

sveppir (ca hálft box)

hálf papirka

grænmetisteningur

salt & pipar

chilikrydd

1 skinkubréf (einnig hægt að hafa beikon og pepparoni)

Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum. Laukar skornir smátt og steiktir upp úr olíu á pönnu. Grænmetið skorið í bita og sett út á. Næst er smurostinum bætt út á pönnuna ásamt rjómanum. Þegar osturinn hefur bráðnað er skinkunni bætt út í ásamt grænmetisteningnum og kryddi. Þegar pastað er tilbúið er vatnið sigtað frá og blanað saman við sósuna. Borið fram ásamt snittubrauði.


Fimmtudagur – Súpa og brauð

Á fimmtudögum reyni ég að hafa eitthvað extra fljótlegt þar sem eldri dóttirin er á æfingu nánast í matartímanum og því er maturinn alltaf frekar seint. Súpa og brauð, ásamt soðnum eggjum og góðu áleggi. Stundum er það pakkasúpa og stundum frá grunni. Allt eftir tíma og nennu.


Föstudagur – Pizza

Heimabökuð pizza með nóg af áleggi og hvítlauksolíu. Föstudagskvöldin eru undirlögð í fjölskyldukósýheit og því er tilvalið að bregða aðeins út af vananum, borða í stofunni og horfa á skemmtilega mynd með krökkunum.


Laugardagur – Kjúklingaréttur

Kjúklingabringur með döðlum og olífum

4 kjúklingabringur

1 bolli smátt saxaðar döðlur

½ bolli olívur

½ bolli fetaostur með olíu

1 krukka rautt pestó

Kjúklingabringurnar steiktar í smástund á pönnu, kryddaðar með salti og pipar, svo er þeim raðað í eldfast mót. Döðlum, ólívum og fetaosti blandað saman í skál og að lokum dreift yfir bringurnar. Hitað í ofni í 30 mínútur á 180°C.


Sunnudagur – Hakkabuff í raspi með parmesen

Þessi uppskrift hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur endað nokkuð oft á matarborðinu. Uppskriftina fann ég á Ljúfmeti.com sem er þvílík gullnáma þegar kemur að uppskriftum.

Mynd af Ljúfmeti.com

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.