Mánudagur – Ofnbakaður fiskur
Mér finnst alltaf jafn gott að borða fisk og ég elska hvað það er hægt að elda hann á marga vegu. Ég hef sankað að mér helling af góðum uppskriftum og hér kemur ein.
600 gr fiskur
1 tsk salt
1-2 msk pipar
2-3 msk karrý
Hveiti
Egg
1/2 box sveppir
1-2 paprikur að eigin vali
2 gulrætur
Matreiðslurjómi
Rifinn ostur
Egg og hveiti sett í sitthvora skálina, salt, pipar og karrý sett út í hveitið. Fisknum velt upp úr eggi og svo hveiti/kryddblöndunni og svo raðað í botninn á eldföstu móti. Grænmetið skorið í litla bita og sett í skál, matreiðslurjómanum blandað saman við (má krydda smá meira ef vill). Blöndunni hellt yfir fiskinn og rifnum osti stráð yfir. Sett í ofn á 180° í 25-30 mín.
Þriðjudagur – Ekki-crepes
Stundum langar mig í crepes…en nenni ekki að búa til crepes. Þá nota ég bara tortillakökur í staðin.
Ég nota:
totrillakökur
karríhrísgrjón (þessi hér)
sinnepssósa
skinka
púrrulaukur
paprika
gular baunir
rifinn ostur
Allt skorið smátt og sett á tortillakökur – byrja og enda á osti og set svo aðra trotillaköku ofan á. Hitað í ofn í 10 mín. á 160°.
Miðvikudagur – Pastaréttur
Við elskum þennan pastarétt og ég elda hann mjög oft. Tilvalið að setja meira grænmeti út á hann sem er komið á síðasta séns í ísskápnum
Fimmtudagur – Súpa og nýbakaðar brauðbollur
Þessar brauðbollur eru algjört sælgæti nýbakaðar og volgar. Mér finnst gott að bera þær fram með góðri súpu eða öðrum réttum t.d. lasagna eða pasta.
Hvítlauksbrauðbollur
1 pakki þurrger
1½ bolli vatn
1 msk sykur
80 g rifinn ostur
1 ½ tsk hvítlauksduft
1 tsk salt
1 tsk basilíka
1 tsk óreganó
3 msk olía
4-5 bollar hveiti
Leysið þurrgerið upp í volgu vatni. Bætið sykri, hvítlauksdufti, salti, basilíku, óreganó, olíu og hveiti saman við og hnoðið vel saman (ég nota hnoðarann á KitchenAid vélinni). Látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Mótið þrjú snittubrauð eða bollur úr deiginu og látið hefast aftur í 30 mínútur. Penslið deigið með þeyttu eggi og stráið rifnum osti yfir. Bakið við 180° í 20-25 mínútur.
Föstudagur – Heimabökuð pizza
Hér fær eldri heimasætan að baka sína eigin pizzu er það einn af hápunktum vikunnar og algjör óþarfi að breyta út af vananum.
Laugardagur – Mangókjúklingabitar
Þessa uppskrift prófaði ég í síðustu viku og þessir kjúklingabitar slógu alveg í gegn og verða pottþétt gerðir aftur og aftur. Virkilega einföld uppskrift og matreiðsla.
Sunnudagur – Boeuf bourguignon
Ég fæ bara vatn í munninn við að lesa þetta! Þessi réttur er náttúrulega bara með þeim betri. Ég fann ekki uppskriftina sem ég nota en hún Svava á Ljúfmeti klikkar seint svo ég læt fylgja með link á uppskrift frá henni.