Veikindi barna – Smitvarnir!

Veikindi barna – Smitvarnir!

Við getum líklega flest verið sammála um að það er ekki skemmtilegt að vera heima með veik börn. Það er kannski notalegt í einn dag, ekki meira. En á hverju hausti fá leikskólabörnin eina pestina af annarri eru stöðugt með hor frá september fram í apríl svo manni finnst þetta ætli engan endi að taka.

En hvað getum við gert til að fyrirbyggja veikindi barna og veikindi okkar sjálfra? Hvernig getum við dregið úr og jafnvel stöðvað útbreiðslu þessara leiðinlegu pesta? Hér eru nokkur ráð til að draga almennt úr veikindum barna – ef sem flestir fylgja þessum ráðum hjálpumst við að við að halda pestunum í skefjum.

  • Höldum barninu heima einum degi lengur. Í Svíþjóð er hægt að nálgast góðar upplýsingar með bæði almennum ráðum og reglum um hvenær börnin megi koma aftur í leikskólann eftir veikindi. Dæmi um slíkan bækling er När ditt barn blir sjukt sem er frá Sóttvörnum á Skáni í Svíþjóð. Þar er gjarnan stuðst við 24 tíma regluna, sem er að vera hitalaus heima í einn sólarhring án þess að fá hitalækkandi meðferð. Ef barnið hefur verið með magapest er farið fram á að barnið sé einkennalaust heima í 48 klst. . Það mætti alveg taka þessa reglu upp á Íslandi, en það gæti verið erfitt í framkvæmd því greiðslur til að vera heima vegna veikinda barna eru líklega töluvert lægri á Íslandi en í Svíþjóð. Þó skal hafa í huga að barn getur verið veikt án þess að það sé með hita. Ef barnið er slapplegt að sjá og vælið, er sennilega skynsamlegt að vera heima og leyfa því að jafna sig. Hægt er að nálgast íslenskar ráðleggingar í þessari töflu:   Hvenær má barnið fara aftur í leikskólann? – Tafla, sem Ágúst Óskar Gústafsson skrifaði í samráði við Þórólf Guðnason barnalækni.
  • Handþvottur, handþvottur og meiri handþvottur! Þegar komið er inn úr dyrunum heima eftir leikskóla, vinnu, æfingar og búðarferðir. Bara senda allan barnaskarann inn á bað að þvo hendur með sápu og foreldrarnir með! Líka fyrir mat og auðvitað í tengslum við klósettferðir og bleyjuskipti. Til greina kemur að hver fjölskyldumeðlimur sé með sitt eigið handklæði. Þið getið lesið nánar um handþvott hér: Mikilvægi handþvottar og skoðað leiðbeiningar við handþvott hér: Handþvottur með sápu – Leiðbeiningar
  • Ekki fara veik/veikur til vinnu. Það er nánast enginn ómissandi í vinnunni sinni, sérstaklega ekki ef maður er gangandi sýkladreifari. Þá ertu eiginlega bara dóni! Njóttu þess frekar að liggja í sófanum og jafna þig fyllilega. Til að draga úr líkum á að vera heima rúmliggjandi í viku eða jafnvel meira, er ráðlagt að fara í bólusetningu gegn árlegri inflúensu. Hægt er að fá bólusetningu á öllum heilsugæslustöðvum landsins gegn vægu gjaldi. Hér er hægt að lesa sér til um inflúensuna: Árleg inflúensa – bólusetning og fleira
  • Ef barnið er laslegt að morgni, kemur til greina að fresta för í vinnu eða skóla um 1-2 tíma og fylgjast með hvort barnið taki við sér eða sé hreinlega að verða lasið. Með þessu getur maður slopppið við ,,Barnið er orðið veikt í leikskólanum”-símtalið. Þessi punktur er líka mikilvægur, því oft smita börnin rétt áður en þau veikjast.

hand-sanitizer

  • Vertu með sprittbrúsana í áskrift! Við erum ekki bara að grínast – öllu gamni fylgir alvara. Einn inni á baði, annar inni í eldhúsi. Næst á dagskrá gæti verið að setja spritt í spraybrúsa til að geta úðað á hin ýmsu yfirborð. Já, við elskum spritt! (Þó ekki til drykkjar) Athugið þó að sprittið kemur ekki í staðinn fyrir handþvott, heldur er góð regla að úða spritti í hendurnar á sér eftir handþvott og leyfa því að þorna.  Að bera spritt á hendur – Leiðbeiningar
  • Ekki fara út að sinna erindum með veik börn eða þegar þú sjálf/sjálfur ert veik/veikur. Úti í samfélaginu eru einstaklingar með misöflugt ónæmiskerfi, sem þola sýkingarnar misvel. Þú eða barnið þitt getur smitað aðra og valdið veikindum hjá fólki sem er veikt fyrir..
  • Á þessum tíma árs lætur nóróveiran á sér kræla um allt í samfélaginu, en þessi veira sem er bráðsmitandi veldur magapest. Hægt er að leggja sitt af mörkum við að hefta útbreiðslu hennar með því að fylgja eftirfarandi ráðleggingum: Fyrirbyggjandi aðgerðir við nóróveirusmitum
  • Hreinlæti við matargerð! Hér kemur handþvottur og spritt sterkt inn. Það er ekki skynsamlegt að elda mat fyrir aðra ef þú ert veik/veikur, þetta á ekki síst við ef þú ert með magapest. Láttu einhvern annan sjá um eldamennskuna, nú eða pantaðu pizzu og fáðu hana heimsenda!

Ef samfélagið hjálpast að með því að fylgja þessum reglum má draga úr þessum leiðinlegu pestum sem leggjast á landann yfir dimmustu mánuði ársins.

 

Facebook Comments