Ungbarnalistinn

Ungbarnalistinn

Þegar ég átti Önnu Hrafnhildi fannst mér rosa gott að lesa lista yfir það hvað öðrum fannst mikilvægt að eiga þegar nýtt barn kæmi á heimilið. Ég ákvað því að skella í minn eigin lista yfir þá hluti sem ég myndi ekki vilja vera án þegar næsta dama er væntanleg.

1. Angelcare barnapía með mottu. 
Mér fannst það veita mér svo mikið öryggi og ró að hafa þetta tæki, maður á það til að vera svolítið stressaður með þessa litlu unga og fannst mér hreyfiskynjarinn algjör snilld.

2. Ungbarnahreiður.
Sumum finnst ungbarnahreiðrið algjör óþarfi en ég elskaði að hafa það, mér fannst gott að geta tekið barnið upp í rúm og þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur. Eins var það gott í vögguna og vagninn þegar þau eru sem minnst.

3. Ömmustóll.
Svo þægilegt að geta lagt þau frá sér í góðan ömmustól, ekki verra ef eitthvað dót er á honum þegar þau verða eldri.

4.Vagga.
Við vorum með vöggu á hjólum sem er mjög þægilegt, svo gott fyrstu vikurnar að geta haft þau frammi hjá sér þegar þau sofa á daginn.

5.Undirbreiður.
Oft koma slys á skiptiborðinu og þá er gott að hafa undirbreiðu sem maður skellir bara í ruslið.

6.Burðarpoki.
Við vorum með Moby wrap fyrstu vikurnar og svo Baby björn. Mér fannst þeir báðir mjög góðir, notaði moby wrap mjög mikið þegar ég var heima að stússa og Anna óróleg. Svo notuðum við Baby björn pokann mikið þegar við fórum út.
7.Góð kerra/vagn með festingar fyrir bílstól.
Það er mikill lúxus að hafa kerru/vagn sem hægt er að smella bílstólnum á, mér finnst það eiginlega bara nauðsynlegt. Svo þægilegt þegar maður er á ferðinni og þarf inn í búð að þurfa ekki að taka barnið úr stólnum.
8. Leikteppi.
Leikteppi er mjög örvandi og skemmtilegt fyrir krílin.
9.Pelahitari.
Við vorum ekki með pelahitara þegar Anna var lítil en það er eitthvað sem ég á pottþétt eftir að kaupa núna ef barnið þarf mikið á pelanum að halda.
10. Bleyjufata.
Bleyjufata er líka eitt af því sem við vorum ekki með þegar Anna var lítil en eigum pottþétt eftir að fjárfesta í núna.  Það fara svo margar bleyjur í ruslið á dag að það er gott að þurfa ekki að hlaupa út eftir hverja bleyju heldur frekar í lok dags. Þá er bleyjufatan algjör snilld sem einangrar lyktina þannig að húsið ilmar ekki af bleyjulykt.

11.Bílstóll með base-i.
Fyrst þegar við vorum að skoða bílstóla hélt ég að base væri bara óþarfa aukakostnaður en komst fljótt að því að það var miklu betra að hafa það. Bæði eru t.d. isofix base-in öruggari og svo er svo þægilegt að geta smellt bílstólnum úr og í bílinn á fljótlegan hátt án þess að vera að vesenast með beltið.

12. Rafmagns brjóstarpumpa.
Ég var bæði með venjulega brjóstapumpu og rafmagns, ég mæli hiklaust með rafmagnspumpunni. Þegar þarf til dæmis að koma brjóstagjöfinni betur af stað er þetta svo miklu þægilegra og líka til þess að eiga til mjólk þegar mamman þarf að skreppa út. Ég var með Medela rafmagnspumpu þegar Anna var lítil og er virkilega ánægð með hana.


Það er alveg ótrúlega einstaklingsbundið hvaða hlutir það eru sem fólki finnst mikilvægir á fyrstu mánuðunum. En þetta eru þeir hlutir sem ég myndi ekki vilja vera án þegar daman mætir á svæðið. Svo eru auðvitað þessir litlu hlutir eins og taubleyjur/gubbuklútar, snuð, pelar, grisjur(til að gera blautþurrkur), rassakrem, brjóstakrem og fleira.

Þið getið fylgst með mér á snappinu mínu

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.