Tinnfinningaríka barnið mitt!

Tinnfinningaríka barnið mitt!

Ríkharð Valur sonur minn verður 4ra ára eftir 2 1/2 mánuð og ég er ennþá að læra hvað hann er ákaflega tilfinningaríkt barn. Þessi stutta föstudagsfærsla er fyrst og fremst til að minna sjálfa mig á og vonandi einhverja fleiri foreldra þarna úti!
Syninum líkar ekki óvæntar uppákomur og það hentar honum best að við undirbúum hann aðeins fyrir dagskrá komandi daga/helgar ef eitthvað sérstakt er á dagskránni.

Í dag er planið að við fjölskyldan förum til Akureyrar til að njóta helgarfrísins, samverunnar og sjúga í okkur smá jólastemningu. Þetta er svo sem ekki frásögufærandi nema fyrir það að við eigum hund, sem við þurftum að finna pössun fyrir.
Í gærkvöldi, eftir að Ríkharð Valur var sofnaður græja ég hundinn, fer með hann í pössunina og pæli svo bara ekki meira í því.
Það fyrsta sem við gerum þegar við vöknum á morgnana er að opna fyrir Buddha, hleypa honum út og svo tekur morgunrútínan okkar við. Það var svo við morgunverðarborðið í morgun að Ríkharð tekur eftir því að enginn Buddha er með okkur!
“Ég ætla að opna fyrir Buddha, við gleymdum því!”

Það var þá sem ég fattaði það…ég lét hann ekki vita í gær að hann væri á leiðinni í pössun!
Þvílík sorg hjá einum ungum og tilfinningaríkum dreng, mjög skiljanlega og algjörlega mín megin að hafa ekki látið hann vita.
Rúmri hálfri klukkustund síðar, gráti og heilmikilli ráðstefnu sætti þessa elska sig við að Buddha kæmi aftur til okkar á sunnudaginn, hann væri að hafa það mjög gott í pössun og við ættum Buddha ennþá!

Áminningin til mín er að muna eftir því að þessi elska er bara tæplega 4ra ára, hann kann ekki að lýsa tilfinningum sínum eins og fullorðnir og með því að útskýra fyrirfram hvað er í gangi koma svona grátleg atvik ekki upp.

 

Góða helgi!

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.