Það sem hreyfing hefur kennt mér- Sigurjón Ernir

Það sem hreyfing hefur kennt mér- Sigurjón Ernir

Loksins birtum við nýjan pistil eftir Sigurjón Erni á blogginu eftir smá hlé.
Í þetta skiptið fer hann yfir hvað hreyfing hefur kennt honum og við Ynjur gefum honum að sjálfsögðu “orðið”.

Það sem hreyfing hefur kennt mér

Hreyfing hefur verið hluti af mínu lífi allt frá barnsaldri og hefur alltaf verið ofarlega á mínum forgangslista. Áhrif hreyfingar á líkamann er gríðarlega góð en með reglulegri hreyfingu getum við byggt upp alhliða styrk, aukið andlega jafnt sem líkamlegan vellíðan og bætt hreyfigetu og lífsgæði á lífsleiðinni.

Ég hef oft verið spurður hvers vegna ég æfi svona mikið eða hvað ég sé að æfa fyrir. Vissulega er ég oft að undirbúa mig fyrir einhverjar áskoranir, en öllu jafna æfi ég til að ná hámarks árangri í öllum þeim áskorunum sem lífið hefur uppá að bjóða, hvort sem það er keppnishlaup, þrekkeppni eða verkefni tengt vinnu.
Næst langar mig að tala um nokkra þætti sem ég tel að hreyfing hafi hjálpað mér með:

1. Það byrjar engin á toppnum:
Nú eru margir sem fylgjast með mér í hreyfinguni og hafa séð að ég hef tekist á við ýmsar áskoranir og oft náð ágætis árangri.

– Snapchat: sigurjon1352

En líkt og allir aðrir þá byrjaði ég ekki á þeim stað sem ég er á í dag. Það hefur tekið mikla vinnu, þolinmæði, mistök/föll og þrautseigju að ná á þann stað sem ég er í dag. Það verður alltaf að vera réttur stígandi í æfingunum, fjölbreytt æfingaráætlun og regluleg hvíld til þess að við getum náð lengra á sviði hreyfingar. Þetta er alltaf langt ferðalag svo það er eins gott að þú sért tilbúin í það.

2. Þú getur alltaf meira en þú heldur:
Ég hef alltaf haft mjög gaman að hreyfingu og stundaði körfubolta í mörg ár á yngri árum. Karfan var vissulega góð hreyfing þar sem ég kynntist nýjum vinum og keppti í fjölmörgum mótum, en það var í raun ekki fyrr en ég byrjaði í Boot Camp á Skaganum þar sem ég fyrst sá hversu langt við getum náð líkamlega. Ég var fljótur að finna að fjölhreysti (þar sem einstaklingar þurfa að vinna með styrk, úthald og snerpu) hentaði mér mjög vel og var ég fljótur að aðlagast nýjum hreyfingum og bæta líkamlega getu. Ég sá í Boot Camp að þú getur alltaf meira en þú heldur og er í raun engin takmörk um hversu langt þú getur náð.

3. Þú getur kennt líkamanum að aðlagast/þola ótrúlegt álag:
Í dag hef ég hlaupið 5 maraþon þar sem ég hef farið úr því að hlaupa mitt fyrsta maraþon á 2:57 klst nærri dauða en lífi, niður í 2:46 klst og eiga nóg inni eftir hlaupið. Hlaupið 172 km á 5 dögum þegar ég hjóp hringinn í kringum landið með Útmeða hópnum. Tvisvar sinnum hlaupið Laugarveginn sem er 55 km ultra maraþon þar sem hlaupið er yfir hálendið, og er mín næsta áskorun heimsmeistaramótið í fjallahlaupum sem er haldið 12. mai á Spáni og spannar brautin 85 km með 5.000m hækkun. Mig hafði aldrei grunað að ég ætti eftir að geta sigrað þessar ofur áskoranir sem ég hef nú þegar farið í gegnum. En ég hef áttað mig á því að líkaminn mun alltaf aðlagast öllu því sem þú leggur á hann og svo lengi sem álagið er ekki of mikið á of stuttum tíma. Ef þú æfir rétt þá mun líkaminn alltaf skila þér á leiðarenda þó að leiðin geti verið erfið og timafrek.

4. Árangur í hreyfingu og rétt næring eiga alltaf samleið:
Ég var ansi ungur þegar ég fór að pæla í mataræði og hvernig það hafði beina tengingu við árangur í hreyfinguni. Eftir að ég áttaði mig á tenginguni þar á milli og hvernig hreint og gott mataræði getur ekki eingöngu bætt líkamlega afkastagetu heldur einnig bætt andlegan líðan og dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum ásamt fleir líkamlegum kvillum þá var þetta aldrei neitt vafaatriði. Ef ég vildi ná hámarksárangri á sviði hreyfingu þá vissi ég vel að mataræðið þurfi að vera fjölbreytt, hollt og gott.

5. Þinn árangur er undir þér komið:
Ef það er eitt sem ég get lofað ykkur þá er það það að ykkar árangur er alltaf undir ykkur sjálfum komið. Líkt og ég hef oft sagt á mínum fyrirlestrum þá þarftu að æfa hratt til að bæta hraða í hlaupum, þú þarft að lyfta þungt til að auka styrk og þú þarft að borða rétt ef þú vilt hafa línurnar í lagi. Það er enginn shortcut þegar kemur að hámarks árangri, þú þarft að leggja inn vinnu, þú þarft að stíga út fyrir þægindarammann og þú munt þurfa að gefast upp/ missa dambinn yfir einhverjar æfingar…. En svo lengi sem þú stendur aftur upp og heldur áfram þá muntu alltaf uppskera árangur úr frá þeirri vinnu sem þú leggur inn.

6. Ekki gefast upp
Í flestum af mínum stærstu áskorunum og sigrum hef ég lent í þeirri stöðu að mig langar virkilega til að gefast upp og jafnvel leggjast bara í fósturstellinguna á næsta grasblett gráta !!!
En ég hef alltaf haldið áfram og klárað verkefni þar sem ég veit að ég get klárað það. Vissulega getum við lent í því að við meiðumst í miðri keppni og þá er skynsamlegara að hætta í stað þess að halda áfram en í flestum tilfellum komumst við alltaf yfir sársaukan sem getur fylgt því að keppa í stórum og krefjandi keppnum. Sama á við um langtíma æfingaráætlun, það koma alltaf tímar sem okkur langar að sleppa æfingu og missum jafnvel sjónar á tilgangnum. Þá er mikilvægt að endurstilla aðeins vélina, forgangsraða rétt og halda svo ótrauð áfram.
– EKKI GEFAST UPP !!!!

P.S. Rífðu þig nú upp úr sófanum, hentu þér í æfingargallann og drífðu þig af stað.

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.