Sykur fyrir börn?

Sykur fyrir börn?

Nú fer að líða að þeim tíma árs þegar boðið er upp á sykur við hvert tækifæri og þá sérstaklega fyrir börn. Súkkulaðidagatöl, piparkökur, smákökur, heitt súkkulaði, nammi frá jólasveinunum og svo mætti lengi telja. Gott er að finna hinn gullna meðalveg, eftir því hvað hentar hverju barni. Ég ætla því að endurbirta eftirfarandi færslu sem ég skrifaði fyrr á þessu ári.

***

Þegar fyrra barnið mitt fæddist var ég algjörlega á þeirri skoðun að sykur skyldi ekki fara inn fyrir varir barnsins míns fyrr en við 12 ára aldur, í fyrsta lagi!  Þið megið hlæja að þessari hugmynd minni, þetta var jafnvel smá bjartsýni. Samt sem áður tókst mér þetta nokkuð vel, fram að svona 3-4 ára aldri. Svo einn daginn kom að því að maður stjórnar ekki alltaf öllu.

Eina helgina fórum við hjónaleysin erlendis, barnið var eftir í umsjá foreldra okkar beggja. Þegar við komum tilbaka var barnið búið að uppgötva Kinderegg og ekki var aftur snúið! En málið er að ömmur og afar mega dekra, til þess eru þau. Það er lúxus að geta farið til ömmu og afa og vera dekraður í döðlur, auðvitað innan skynsamlegra marka. Börnin skapa minningar með ömmum sínum og öfum. Á meðan græða foreldrarnir barnlausan tíma og ekki er það slæmt!

Auðvitað er skynsamlegast að halda sykruðum mat í lágmarki fyrir litla munna, svo ég tali nú ekki um litlar tennur. Talandi um tennur, þá eru ávaxtasafar sem markaðssettir eru fyrir ung börn engu skárri fyrir tennurnar en kók. En margir virðast ekki vita þetta, það er alveg sama þó safinn sé lífrænn eða nýkreistur, ávaxtasafi inniheldur sýrur sem skemma tennur. Þá er sykurskert kókómjólk skárri kostur, ef drykkurinn ,,þarf” að koma úr fernu. Til fróðleiks: Tannheilsa barna

Nú búum við í samfélagi þar sem mikið framboð er af mat, bæði hollum og óhollum mat. Á hverju strái eru skyndibitastaðir, ísbúðir, nammibarir og svo má lengi telja. Það eru hins vegar líka ágætar (reyndar mætti eflaust gera betur) grænmetis- og ávaxtadeildir í búðunum og veitingastaðir með hollari valkostum.

Hvað getum við, sem foreldrar, gert? Jú, við getum kennt börnunum okkar að velja betri kostinn. Við getum kynnt þeim fyrir hollum mat, t.d. með því að leyfa þeim að velja grænmetið og ávextina í búðinni. Við þurfum að útskýra fyrir þeim af hverju við kaupum Cheerios en ekki Cocoa Puffs. Við þurfum að fræða þau um af hverju við tökum lýsi, af hverju við borðum hitt en ekki þetta. Við þurfum að kenna þeim að skammta mátulega á diskinn sinn, hvort sem það er grænmeti, kjöt eða kökusneið. Við þurfum að útskýra fyrir þeim að okkur líður vel ef við borðum næringarríkan mat en að stundum sé gaman að fá sér kökusneið eða nokkra mola úr nammibarnum, t.d. einn mola fyrir hvert aldursár upp að 7-8 ára aldri. Það þýðir ekkert að segja bara “Nei”, án þess að færa rök fyrir máli sínu.

Við útrýmum seint sykri og skyndibitum úr samfélaginu, ekki frekar en við útrýmum sykri á jólunum. Því þurfum við öll að læra að lifa í sátt og samlyndi við þessa púka.

Að lokum langar mig að bæta því við að það er óþarfi að dæma aðra foreldra út frá því hvað þeir gefa börnunum sínum að borða. Ég kýs að trúa því að langflestir foreldrar reyni að gera það sem er barninu sínu fyrir bestu. Svo koma dagar þar sem allt er ómögulegt, allir þreyttir og pirraðir og jólaóróinn í hámarki. Á svoleiðis dögum kemur fyrir að maður kaupi sér frið og leyfi börnunum að borða sykur á einhverju formi, einfaldlega til að geta sjálfur sest niður með kaffibolla og fengið frið í fáeinar mínútur!

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

Facebook Comments