Sunnudagur til sælu?

Sunnudagur til sælu?

Það er langt síðan ég hef sest niður og skrifað eitthvað persónulegt. Mér fannst á tímabili eins og ég hefði ekki rétt á því gagnvart barninu mínu að skrifa hluti um hann án þess að hann gæti nokkuð sagt eða gert í því, og mér finnst það alveg stundum ennþá! Hvað á ég með að skrifa hvað hann sé svona eða hinsegin þegar hann er bara 3ja ára og veit ekki einu sinni hvað blogg er?

Gærdagurinn fór klárlega í reynslubankann og mig langar að skrifa um hann.

Sonur minn er á þeim aldri að hann skilur ótrúlega margt, en samt svo lítið! Sunnudagar eru yfirleitt rólegir hjá okkur, hann fær að leggja sig ef hann vill og almennt höfum það huggulegt.
Dagurinn í gær var allur einhvern veginn öfugsnúinn, það brotnuðu bollar og sullaðist niður, allt einhvern veginn ekki eins og það á að vera.

Í fyrsta skipti í gær grét ég undan syni mínum! Ég stóð útá bílastæði og hágrét!

 

Við höfðum verið í heimsókn hjá fjölskyldumeðlimum og þar elskar sonur minn að vera. Hann fékk svo að vera lengur og ég útskýrði vel fyrir honum að þegar ég kæmi aftur þá færum við heim að borða kvöldmat.
Þegar ég kem svo að sækja vill hann ekki fara heim og eftir miklar samræður greip hann til þess eina sem hann átti eftir, hnefans!
Yfirleitt þá náum við að ræða málin og hann veit svoooo vel að hann á ekki að lemja en þarna, kl 6 á sunnudagskvöldi virkuðu engin ráð. Ég keyrði því í burtu með barnið á sokkunum, með ekkasog og tárin í augunum…buguð, bara einfaldlega buguð.
Brunaði heim til foreldra minna sem búa í sömu götu, tók barnið inn og tilkynnti foreldrunum mínum að þetta barn gæti ég bara ekki verið nálægt!
Svo stóð ég bara á bílastæðinu og grét…

Ég hef aldrei séð svona svip á elsku barninu mínu, og kannski var þetta eitthvað sem þurfti að gerast og hann að sjá. Hann varð svo furðu lostinn að mamman gæti grátið að hann fór sjálfur að hágráta.
Eftir að foreldrar mínir náðu mér svo inn, þá grétum við mæðginin saman. Ég fékk þá fallegustu afsökunarbeiðni sem ég hef fengið, endalaus knús og fullt af kossum!

Pointið með þessari færslu? Svo sem ekki neitt annað en að við mæður þurfum ekki alltaf að vera eins og klettur, við megum sína börnunum okkar að ef hegðun þeirra er óboðleg þá höfum við tilfinningar og við eigum ekki að hika við að sína þær.
Ég grét ekki í gær bara af því að Ríkharð Valur valdi þessa leið til að mótmæla, þetta bara fyllti einhvern mæli sem ég vissi ekki að væri að fyllast og útrásin var sennilega bara það sem ég þurfti.

Eigið góða viku!

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.