Súkkulaðidraumur með silkimjúku piparmyntukremi

Súkkulaðidraumur með silkimjúku piparmyntukremi

Það er bara eitthvað við bismark brjóstsykur og jólin – því finnst mér þessi kaka tilvalin um jólahátíðina. Kremið eitt og sér er algjört sælgæti og ég lofa að þið verðið ekki svikin af þessari piparmyntudásemd.

 

Súkkulaðidraumur með silkimjúku piparmyntukremi

 

Súkkulaðidraumur

225 g sykur

225 g púðursykur

195 g smjör (við stofuhita)

3 egg

390 g hveiti

1 ½  tsk matarsódi

2 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

90 g kakó

3 dl mjólk

½ bolli Nutella súkkulaði

 

Aðferð:

Þeyta sykur og smjör saman í hrærivél í 5-7 mínútur (á miðlungs eða mesta hita) eða þar til blandan verður ljós að lit og létt í sér. Bæta eggjum saman við einu í einu, þeyta vel á milli. Þurrefnunum blandað saman í aðra skál og síðan blandað varlega saman við sykurblönduna. Mjólkinni er bætt við og síðast Nutella súkkulaðinu. Deiginu er skipt niður í þrjú smurð 23 cm hringlaga form. Bakað við 180°C í 20-25 mínútur eða þangað til tannstöngli sem er stungið í kökuna kemur hreinn út. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á.

 

Silkimjúkt piparmyntukrem

225 g Philadelphia rjómaostur (við stofuhita)

1 bolli flórsykur

¾ bolli sykurpúðakrem (Marshmellow Cream)

2 tsk piparmyntudropar

¾ bolli mulinn Bismark brjóstsykur + ¼ bolli til skreytingar

450 g Cool Whip (einnig hægt að nota ½ l rjóma, ½  tsk vanilludropar og  ½  bolla flórsykur)

 

 

Aðferð:

Hræra rjómaostinn í hrærivél í ca 30 sekúndur. Flórsykri, sykurpúðakremi, piparmyntudropum og brjóstsykri bætt saman við. Að lokum er Cool Wip hrært varlega saman við með sleif.

 

Samsetning:
Kökubotnarnir settir á kökudisk og ca þriðjungur kremsins settur á milli hvers lags fyrir sig þegar botnarnir hafa kólnað alveg. Á efsta botninn er kreminu svo sprautað á með stórum sprautustút (líka hægt að setja í plastpoka og klippa gat á eitt hornið). Að lokum er muldum brjóstsykri stráð yfir kökuna.

Gott er að geyma kökuna í kæli og taka hana út hálfri til einni klukkustund áður en hún er borin fram.

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.