Skólabækur í annarri og börn í hinni

Skólabækur í annarri og börn í hinni

Skólabækur í annarri og barn í hinni

Þannig byrjaði mín háskólaganga haustið 2012. Ég var einstæð móðir á kaflaskiptum í lífinu og var loksins ákveðin í því að fylgja hjartanu og hætta að velja námsleið sem myndi skila mér sem mestu tekjunum í framtíðinni. Algjör lúxus segir fólk, að vera í námi og með barn – sem ég er að vissu leyti sammála. Það var ekkert vesen þegar það var starfsdagur eða þegar dóttirin var veik. Fyrirlesturinn var bara færður heim í stofu í formi myndbands seinna um kvöldið og skólafélagar deildu glósum. Allt gekk vel og allt eins og það átti að vera.

Tíminn leið og ári seinna var ég komin í sambúð og orðin ólétt. Það var þó stutt gleði því 2 vikum fyrir 12 vikna sónarinn fannst enginn hjartsláttur. Mánuði fyrir jólaprófin sat ég nýbúin í aðgerð þar sem fóstrið var tekið, gjörsamlega búin á líkama og sál. Við tóku svefnlausar nætur, stress og meira stress. Það þarf líklega ekki að nefna það en jólaprófin þennan desembermánuð gengu ekki vel og það fór svo að ég féll í öllum nema einu þeirra.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá kom það aldrei upp í hugann að hætta í náminu. Ég setti mér það sem markmið þegar ég byrjaði að klára þetta nám sem ég byrjaði í, mér fannst það áhugavert og skemmtilegt og ég skyldi klára það sama hvað.

10698441_10152776705639892_51636695743022309_n

Skólabækur í annarri og börn í hinni

Svo gerðist það, ári seinna, að ég sat að lesa fyrir jólaprófin – með nýfædda dóttur í fanginu. Á milli þess sem ég naut þess að horfa á hana meðan ég gaf henni brjóst, knúsast, njóta stundanna með fjölskyldunni, hugsa um hana og eldri dóttur mína, lærði ég og las fyrir komandi jólapróf. Ég man þegar ég var ólétt og fólk spurði mig út í það hvenær ég væri sett fékk ég yfirleitt spurninguna “…en ertu ekki í skóla? Hvað með jólaprófin? Hvað ef barnið verður óvært?” svaraði ég yfirleitt að það myndi bara koma í ljós, ég myndi bara gera mitt besta og meira gæti ég ekki gert. Svo fór að ég gerði mitt besta – og náði öllum fjórum lokaprófunum mínum. Þarna kom ég sjálfri mér svo mikið á óvart. Ég man þegar síðasta einkunnin datt í hús rétt eftir jólin – ég grét úr gleði og stolti. Mér (og litlunni minni) tókst eitthvað sem mörgum þótti ómögulegt að ég gæti. Þarna jókst sjálfstraustið mitt og mér fannst ég hreinlega ósigrandi.

1484582_10152877369894892_3711161707670487162_n

Á þessum tímapunkti fannst mér mjög gáfulegt að stofna lítið fyrirtæki sem hafði í raun verið draumur hjá mér lengi. Í dag skil ég stundum ekki hvað ég var að hugsa en drifkrafturinn (og þrjóskan) kemur manni ansi langt. Tíminn leið, dæturnar brögguðust vel og vorprófin gengu eins og í sögu.

Um haustið byrjaði svo síðasta árið í náminu mínu. Fjórða árið – sem var í rauninni það þriðja í náminu -var loksins byrjað og ég sá fyrir endann á þessu. Heima með yngri dótturina alla daga, rekandi lítið fyrirtæki, vinnandi helgarvinnu og sinnandi fjölskyldunni skrifaði ég lokaritgerðina mína og sumarið eftir útskrifaðist ég með háskólagráðu. Tilfinningin að taka á móti prófskírteininu var algjörlega mögnuð og mig langaði hreinlega að gráta af gleði. Þarna voru fjögur strembin, lærdómsrík og dásamleg ár skráð og skjalfest. Þetta markmið, þessi sigur, yrði aldrei tekinn frá mér.

Þessi færsla er ekki skrifuð til að upphefja s
jálfa mig – síður en svo. Ég vildi deila með ykkur, hvort sem þið eruð mæður eða ekki, að það er allt hægt! Þótt það virðist kannski vera ógerlegt – þá sakar aldrei að reyna, því ávinningurinn getur verið svo miklu miklu meiri og stærri en þið getið ímyndað ykkur.

Ég er þakklát fyrir þessi ár með skólabækur í annarri og börn í hinni – en nú í fyrsta sinn í fjögur ár ætla ég að njóta desember í almennri jólagleði með börn í annarri og þakklæti í hinni.

892398_10153727634689892_6572130836683933966_o

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.