Skírnarveisla

Skírnarveisla

Á Uppstigningardag var drengurinn okkar skírður og fékk við það tilefni nafnið Símon Geir. Við héldum veisluna í litlum fallegum sal og áttum góðan dag með okkar nánasta fólki. Mig langar að deila með ykkur nokkrum myndum úr veislunni.

 

Kökuna gerði ég sjálf en þetta er sítrónu- og bláberjakaka með rjómaostakremi, uppskriftin er hér. Mér finnst þessi alltaf mjög góð og góð tilbreyting frá súkkulaðikökunum. Ég ákvað að hafa kökurmar á tveimur kökudiskum í staðinn fyrir að stafla þeim og kom það ótrúlega skemmtilega út. Kökurnar skreytti ég með þremur mismunandi sprautustútum og nafnaveifuna föndraði ég.

 

Ég skreytti veisluborðið ekki mikið en litlu kúlurnar keypti ég í Söstrene Grene og svo fannst mér löberinn á miðju borðinu alveg setja punktinn yfir i-ið en hann er handgerður af langömmu mannsins míns.

 

Kertið pantaði ég hjá nunnunum í Karmelklaustrinu – alltaf jafn fallegt hjá þeim. Var svo með vasa með Eucalyptusgreinum ásamt brúðarslöri; látlaust og fallegt. Ég var svo með svona litlar krukkur með satínborða á öllum borðunum en ég steingleymdi að taka mynd yfir salinn. Krukkurnar voru af öllum stærðum og gerðum en ég hef sankað þeim að mér í gegnum árin og notað í hinum ýmsu veislum og þá bara skipt um borða á þeim. Satínborðarnir eru úr Söstrene Grene.

 

Veisluborðið var gjörsamlega hlaðið kræsingum og fengum við mikla hjálp frá fjölskyldunni okkar. Kleinuhringina keypti ég í Stórkaup ásamt kjúklingaspjótum og kjötbollum, annað var heimatilbúið. Verð að mæla með brauðrétti sem ég gerði en uppskriftina fékk ég á Paz.is. Virkilega góður og kom þvílíkt á óvart.

 

Gestabókina keypti ég á 600 kr í Tiger – elska svona góð kaup! Svo bað ég nunnurnar að skrautskrifa inn í hana fyrir okkur og prentaði svo út mynd af aðal manninum og setti í miðjuna. Ramman gerði ég sjálf en hægt er að panta svona fæðingarupplýsingamynd hjá mér á Rammagull á Facebook. Hægt er að velja um nokkrar týpur og auðvitað hægt að fá í hvaða lit sem er. Skemmtileg leið til að vera með persónulegt skraut í veislunni sem er svo hægt að nota áfram t.d. inni í barnaherbergi.

 

Mamma og Símon Geir

Ein mynd af okkur mæðginum í lokin.

 

Ég er mjög virk á Instagram og Instastory – ykkur er velkomið að fylgja mér.

 

 

 

 

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.