Skelfatnaðurinn frá POP: Mín reynsla!

Skelfatnaðurinn frá POP: Mín reynsla!

Í fyrravor voru Ríkharð Valur sonur minn og Kristín Heba dóttir Sólveigar Ásu svo heppin að fá skelfatnað frá sænska gæðamerkinu Polarn O. Pyret að gjöf.
Þau krúttin voru notuð sem módel í dásamlegri myndatöku fyrir fatnaðinn og færsla birt með öllum staðreyndum um gæði og endingu á fötunum.

Það er svo stundum þannig að eftir svona færslur fá lesendur ekki að vita neitt meira! Dugðu fötin í 2 mánuði eða hvað?

Mig langar því aðeins að segja ykkur frá minni reynslu af skelfatnaðinum frá merkinu (og ég er nokkuð viss um að Sólveig getur tekið undir mín orð) og hvernig þau hafa reynst okkur.

Það er eiginlega bara best að orða það þannig að þetta eru bestu útiföt sem sonur minn hefur átt! Ég er alls ekki að grínast með þetta, en fötin (jakki og buxur) hafa verið notuð í leikskólann í hverri einustu viku, jakkinn er eini jakkinn sem sonur minn vill nota og þau eru þvegin í þvottavél að minnsta kosti einu sinni í viku og yfirleitt oftar.

Eins og þið sjáið á myndunum valdi ég ekki þægilegasta litinn þegar kemur að óhreinindum en eins og þið sjáið líka þá er jakkinn ennþá eins og nýr! Það er fyrst núna, tæpu ári eftir að við fengum fötin að rennilásinn er aðeins orðinn stífur og teygjan undir buxunum orðin slitin. Að öðru leiti gæti ég pakkað fötunum ofan í kassa og þau væru svo gott sem ný fyrir næsta barn!
Þegar við fengum fötin tók ég stærð 92 og þau passa ennþá. Buxurnar verða sennilega orðnar of klofstuttar fyrir næsta haust en ég giska á að jakkinn verði ennþá í notkun þá 🙂

Að öllu gamni slepptu þá mæli ég svo sannarlega með skelfötunum frá POP!
Færslan er ekki kostuð og ég fæ ekkert “út úr því” að skrifa þetta nema þá ánægju að geta gefið ykkur mína upplifun og reynslu 🙂

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.