Salt-, sykur- eða kaffiskrúbbur?

Salt-, sykur- eða kaffiskrúbbur?

Skrúbbar fyrir líkamann eru ótrúlega vinsælir núna sem ég fagna mjög en mér hefur oft fundist vanta áhersluna á að íslenskar konur hugsi jafn vel um sig fyrir neðan háls og ofan.
Þrjár algengustu tegundirnar af skrúbbum fyrir líkamann eru gerðir úr salti, sykri eða kaffi sem aðal djúphreinsandi innihaldsefnið.

Hver er munurinn á þessum þremur lykil innihaldsefnum?
Er kannski enginn munur?

Saltskrúbbar:
Þetta eru yfirleitt grófustu skrúbbarnir þar sem saltagnirnar eru oftast frekar stórar og jafnvel örlítið oddhvassar. Salt hefur sótthreinsandi áhrif á líkamann og sumar tegundir af salti eru stútfullar af mikilvægum steinefnum! Saltskrúbbar henta því gríðarlega vel á erfiða þurrkubletti, grófa hæla og á svæði sem þola meira áreiti. Hjálparefni í saltskrúbbum eru oftast gæðaolíur sem mýkja saltið upp. Sykurskrúbbar henta að sjálfsögðu öllum og hver og einn þarf að finna út fyrir sig hversu oft það hentar að nota skrúbbinn!

Sykurskrúbbar:
Það sem sykuragnirnar eru oftast minni en í saltskrúbbi eru sykurskrúbbar yfirleitt aðeins mildari á húðina, gott að nota á allan líkamann en ráðast ekki alveg jafn vel á erfiðustu þurrkusvæðin. Þessir skrúbbar eru oft kremaðari í áferð og hjálparefni oft sápuefni sem freyða örlítið. Sykurskrúbba er jafnvel óhætt að nota á nývaxaða fætur!

Kaffiskrúbbar:
Þetta er mín uppáhaldstegund af skrúbbi. Kaffi er undraefni sem hefur andoxandi eiginleika, djúphreinsar, örvar húðina og er hinn fullkomnir “detox” skrúbbur. Gæðaolíum er yfirleitt bætt í kaffiskrúbbana ásamt jurtum og oft öðru djúphreinsandi innihaldsefni, td grjónum. Kaffið er milt á húðina að því leitinu til að það má skrúbba sig með kaffinu á hverjum degi þrátt fyrir virknina. Af þessum þremur tegundum af skrúbbum þá er kaffið sú virkasta.

Vonandi hjálpaði þetta ykkur eitthvað í leitinni að hinum fullkomna líkamsskrúbb!

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.