Pizzadeig sem klikkar aldrei!- uppskrift

Pizzadeig sem klikkar aldrei!- uppskrift

Föstudagar eru heilagir pizzudagar á mínu heimili og ég veit ekki hvað ég klúðraði mörgum slíkum þangað til að ég datt loksins niður á þessa uppskrift.

Ég er ekki færasti bakarinn í bænum og þarf að hafa mjög skýr fyrirmæli þegar ég legg í slíkt og hér hafið þið “idiot proof” en samt virkilega góða uppskrift af pizzadeigi.

3 tsk. (einn lítill poki) þurrger

1 tsk. sykur

2 dl heitt vatn

5 dl hveiti

1 msk olía

1 tsk salt

Þurgerinu,sykrinum og vatninu er blandað saman í skál og látið bíða í smástund eða þangað til að blandan fer að freyða, ég breiði viskastykki yfir skálina á meðan ég bíð.

Þá er hveitinu,olíunni og saltinu blandað saman við , deigið hnoðað og leyft að hefast á hlýjum stað í þann tíma sem þið hafið 15 min-klukkutími, hefur ekki skipt máli hjá mér hingað til.

Ég hnoða mitt deig í hrærivél en áður en ég eignaðist slíkan dýrgrip dugðu hendurnar vel til verksins. Minnir líka að ég hafi stunduð sleppt því að hnoða deigið áður en lét það hefa sig.

Trúi ekki öðru en að þetta muni heppnast hjá ykkur!

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.