Ostabrauðréttur

Ostabrauðréttur

Þennan rétt smakkaði ég hjá tengdamömmu um daginn og vissi strax að þetta yrði réttur sem ég myndi vilja bjóða upp á veislu hjá mér. Síðastliðna helgi héldum við upp á 2 ára afmæli dóttur okkar og því fannst mér tilvalið að bjóða upp á þennan rétt.


Ostabrauðréttur

1 Camenbert ostur

1 Höfðingi

1 mexíkóostur

1 hvítlauksostur

(auðvitað hægt að nota aðra osta, allt eftir smekk hvers og eins)
1/2 l. rjómi
100 gr. skinka
200 gr. sveppir
1 rauð paprika
rifinn gratín ostur
salt og pipar eftir smekk
ca. hálft brauð (aðeins rúmlega ef sleppa á skorpunni)


Ostarnir eru brytjaðir smátt niður og settir í pott ásamt rjómanum. Hitað þangað til ostarnir hafa bráðnað alveg. Gott að smakka til með salti og pipar, eða jafnvel öðru kryddi.

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir á pönnu upp úr olíu. Skinkan og paprikan er skorin í litla teninga. Brauðið er rifið niður og sett í eldfast mót. Skinkunni, sveppunum og paprikunni dreift yfir brauðið og ostablöndunni hellt yfir. Að lokum er rifnum osti stráð yfir.

Bakið í 20-30 mínútur á 200 °C. Berið fram heitt ásamt rifsberjahlaupi.

Mæli svo sannarlega með þessum ef þið viljið prófa einhvern nýjan brauðrétt í næstu veislu!

14632979_10211174788304670_3255155065553971427_n

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.