Óhamingjan í hamingjunni

Óhamingjan í hamingjunni

Nú er ég svo heppin að ganga með mitt annað barn, lítið kraftaverkabarn sem kom undir án nokkurrar hjálpar og öllum til mikillar undrunar. En eitthvað er ekki búið að vera eins og það á að vera.

Meðgangan byrjaði með gíflurlegri ógleði og tilheyrandi uppköstum, núna undafarnar tvær vikur hefur þetta sem betur fer að mestu horfið. Fyrstu vikurnar leið mér rosalega illa andlega, ég var alveg viss um að ástæðan fyrir þessari andlegu vanlíðan væri af því að mér væri svo óglatt og erfitt væri að brosa í gegnum það. En svo liðu vikurnar og ástandið versnaði bara ef eitthvað er, ég fékk brjálað samviskubit að vera ekki að deyja úr hamingju yfir einhverju sem átti að veita svo mikla gleði. Ég ætlaði mér að harka af mér í gegnum þetta og á endanum hlyti mér að fara að líða betur. En ekkert skeði, ég varð mikið oftar geðvond, langaði ekkert að gera, fékk kvíða yfir einhverju smotteríi og átti mjög erfitt með að gleðjast nema þá rétt yfir 2. ára dóttir minni. Í  flest öll skiptin sem bros kom eða ég hló var það gríma sem ég setti upp. Ég fór að kvíða fyrir því að tengjast barninu ekki nóg þar sem mér liði einfaldlega bara alltaf illa inn í mér.

Það var ekki fyrr en Atli fór virkilega að spurja mig út í hvað væri í gangi, hvort ég væri svona óhamingjusöm eða hvað að ég brotnaði niður og sagði honum hvernig mér var búið að líða og að ég hafi ekki þorað að segja neitt því ég hafði svo mikið samviskubit og skammaðist mín fyrir að líða svona þegar mér fannst mér eiga að líða vel.

Í framhaldi samtals okkar Alta heyrði ég í ljósmóðurinni minni sem útskrýrði fyrir mér að ekkert væri óeðlilegt við þessar tilfinningar, þetta væri miklu algengara en mig grunaði. Í samráði við lækni tókum við ákvörðun um að ég myndi prófa lyf ásamt því að mæta á námskeið fyrir barnshafandi konur með andlega vanlíðan.

Nú eru liðnar 6 vikur síðan að ég tók á þessu og þvílíkur og annar eins munur sem er á mér. Ég er glaðari, pirrast ekki eins auðveldlega og allt er bara einhvernveginn eins og það á að vera. Ég er loksins ÉG, ég er glöð, hlakka til framhaldsins og nýt þess að gera alla mögulega hluti eins og ég var vön. Ég er ofsalega þakklát að hafa áttað mig á þessu tímanlega og gert eitthvað í því strax. Auðvitað er þetta ekkert sem ég á að skammast mín fyrir.  Stundum er bara svoltið erfitt að taka skrefið og viðurkenna fyrir sjálfri sér að það er ekki allt eins og það á að vera þá sérstaklega þegar maður er búin að ákveða að maður á að vera brjálæðislega hamingjusamur í gegnum þetta allt saman því þetta er jú kraftaverk.

Ég viðurkenni að það tók smá á að ákveða að birta þetta en ég ákvað að þetta þyrfti ekki að vera svona mikið feimnismál, þetta er svo algengt þó svo maður heyri ekki mikið af þessu.

 

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.