Ofþyngd og andleg líðan

Ofþyngd og andleg líðan

Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf verið í einhverskonar baráttu við aukakílóin eða ofþyngd. Ég hef alveg verið grönn en samt stærsta hluta ævinnar hef ég verið með aukakíló og núna síðustu ár í ofþyngd. Það að vera stanslaust með hugann við það að vera of þungur tekur ansi mikið á andlega líðan. Ég hef einhvernveginn aldrei náð að vera sátt með sjálfa mig.

Þegar ég var 50kg. 16 ára gömul sá ég mig aldrei granna, fannst ég alltaf vera of feit, með of stór læri eða maga.  Ég var alltaf í kápu í skólanum, sama hvort ég var úti eða inni. Því ekki vildi ég að aðrir myndu sjá hvað ég væri nú með stór læri eða rass. Ég man svo vel eftir öllum kjaftasögunum í skólanum um að ég væri að fara á klósettið til að æla því sem ég borðaði og öðrum sögum um af hverju ég væri orðin svona grönn.  Ég fór aldrei og ældi neinu, á þessum tíma leið mér bara ekki vel hvorki með mig né annað sem varð til þess að ég borðaði ekki nóg.

Eftir að ég varð eldri fór ég að ganga í kjólum og pilsum, leið aldrei vel í gallabuxum eða þröngum fötum því ég var svo meðvituð um ¨galla¨mína.  Ég man aldrei eftir að hafa verið sátt með vaxtalag mitt.

Eftir að ég átti Marín Helgu byrjaði ég á að grennast mikið en það varði ekki lengi því  ég fór að þyngjast aftur sem endaði með því að ég varð þyngri en ég hafði nokkurtíman verið. Ákveðin uppgjöf brast út og ég vissi hreinlega ekki hvernig þetta myndi enda, sá fyrir mér að enda með sykursýki og aðra kvilla tengda ofþyngd, gæti ekki leikið mér við börnin mín eins og ég vildi og væri ekki nógu góð fyrirmynd fyrir dætur mínar. Eftir mikla umhugsun um hvernig ég ætti að koma mér á strik, verða heilbrigðari, líða betur og verða betri fyrirmynd fyrir dætur mínar tók ég ákvörðun um að fara í magaermi. Ég þekki konur sem höfðu valið þessa leið og vissi að þetta breytti lífi þeirra algjörlega. Eftir að hafa kynnt mér þetta vel og talað við þær ákvað ég að þetta væri leiðin fyrir mig. Ekki vegna útlits og vaxtalags heldur til að lifa heilbrigðara lífi, verða betri fyrirmynd og líða betur. Það að fá að líta betur út er bara bónus.

Nú eru 3 vikur frá aðgerð, rúmlega 10kg. farinn og mér líður miklu betur. Fyrstu tvær vikurnar voru erfiðari þar sem ég var á fljótandi en núna er það allt annað. Finn það að andleg líðan er mikið betri,  ég er ekkert að horfa á hvernig ég er vaxin og er ekkert að forðast það að vera í þröngum fötum. Mér líður bara ofsalega vel og hlakka mikið til framhaldsins.

Það skiptir ekki máli hvað vigtin segir, hvernig maður er vaxinn eða hvort maður passi í föt í stærð 10. Það sem skiptir öllu máli er að líða vel og vera hamingjusamur. Ég vildi að ég hefði áttað mig á því fyrr en er glöð að vera komin á þann stað núna.

 

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.