Næring ungbarna á aldrinum 6-12 mánaða

Næring ungbarna á aldrinum 6-12 mánaða

Að kenna litlu barni að borða getur reynst þrautinni þyngri. Sum börn vilja borða allt og eru mjög áhugasöm á meðan önnur vilja ekki sjá neinn mat og kjósa bara mjólkina sína áfram. Almennt séð reyna flestir foreldrar að gera það sem er börnunum þeirra fyrir bestu, en ekkert foreldri gerir allt rétt. Það er bara hreinlega ómögulegt, en á meðan barnið vex og dafnar og er ánægt og hraust, er ekki ástæða til að efast um hæfileika sína sem foreldri. En ég veit að þetta getur valdið nýbökuðum foreldrum kvíða og hugarangri.

Hér eru nokkur atriði tekin saman, með það í huga að næringarástand ungbarna á þessum aldri sé sem best verður á kosið.
Brjóstamjólk
Mælt er með að barn sé á brjósti til eins árs aldurs eða lengur, ef hægt er. Þó brjóstamjólk innihaldi fyrst og fremst næringarefni, inniheldur hún auk þess efni sem hafa áhrif á þroska meltingarfæranna og margvíslega starfsemi þeirra, hormóna, vaxtarþætti og önnur efni sem örva ónæmiskerfið á góðan máta. Þar að auki eru tengsl við langa brjóstagjöf og minni líkur á ofþyngd eða offitu á fullorðinsárum, háþrýstingi, kólesterólhækkun, sykursýki og bólgusjúkdómum í þörmum. Heimild.
Aukin fjölbreytni
Flest börn eru farin að smakka fasta fæðu við 6 mánaða aldur til viðbótar við brjóstamjólk eða þurrmjólk. Ef barnið hefur eingöngu verið á brjósti fram að 6 mánaða aldri, er rétt að fara gefa barninu fasta fæðu, en orku- og næringarþörf þess eykst til muna þegar barnið hefur náð hálfs árs aldri.
Fljótlega eftir að barn hefur náð 6 mánaða aldri ætti fjölbreytileiki í mataræði þess að aukast til muna, samhliða brjóstagjöf ef hægt er. Þó er mikilvægt að hafa matinn í áferð sem hentar barninu. Það er yfirleitt slétt og þunn áferð, eða mjúkir bitar. En ekkert barn er eins og því misjafnt hvaða áferð hentar hverju barni. Fyrstu mánuðina er mikilvægt að sjóða allt grænmeti sem barnið fær.
Lýsi eða D-dropar
Þegar barnið er byrjað að fá fasta fæðu má skipta D-dropum út fyrir lýsi. Mikilvægt er að lýsið sem barninu er gefið sé krakkalýsi, en það er framleitt með næringarþarfir ungra barna í huga. Í hefðbundnu þorskalýsi er of mikið A-vítamín fyrir litla kroppa, í krakkalýsinu hefur magn A-vítamíns hins vegar verið skert. Mælt er með að gefa barninu eina teskeið af krakkalýsi (5 ml). Heimild.

Járn
Við fæðingu fullburða barns eru járnbirgðir barnsins nægilegar fram að 6 mánaða aldri, auk þess sem hluti járnsins fæst gegnum brjóstamjólk. Eftir 6 mánaða aldur er hætta á að járnbúskapur barns verði of lítill.
Barn sem ekki er á brjósti þarf, vegna þessa, að fá járnbætta mjólk. Stoðmjólk er dæmi um járnbætta og próteinskerta mjólk sem gefa má börnum frá 6 mánaða til 2 ára aldurs. Það skal þó hafa í huga að stoðmjólk kemur ekki í staðinn fyrir máltíð heldur er hún hugsuð sem drykkur með öðrum mat.

Börnum, sem eru á brjósti, dugir járnrík fæða í bland við brjóstagjöf. En dæmi um járnríkan mat eru járnbættir grautar, kjöt, fiskur, egg, baunir og linsur. Járn sem fæst úr kjöti og fiski nýtist hins vegar betur en járn úr afurðum sem koma frá jurtaríkinu. Æskilegt er að gefa ávexti og grænmeti með járnríkri fæðu, en C-vítamín eykur nýtingu járns úr jurtaríkinu. Heimild.
Fita
Lítil börn þurfa meiri fitu en aðrir aldurshópar. Gott er að venja börnin snemma á að borða avókadó, en þar leynist mjög góð fita. Auk þess má bæta vel af olíu og smjöri í annan mat sem barnið borðar. Fitan er þeim ekki einungis holl, heldur er hún líka mettandi og barnið verður því ekki eins fljótt svangt aftur.
Fæða sem EKKI er æskileg börnum undir 12 mánaða aldri
Þessi upptalning kom einnig fram í þessari færslu um næringu fyrir börn á aldrinum 0-6 mánaða., en þetta á einnig við um aldurshópinn 6-12 mánaða.
Hunang
Nýbökuðum mæðrum er oft ráðlagt að setja hunang á snuð ungbarna sinna til þess að barnið taki frekar við snuðinu. Oftar en ekki er það eldri kynslóðin sem ráðleggur þetta og segja jafnvel fleygar setningar eins og “Ég gerði þetta við börnin mín og það er allt í lagi með þau”.
Þessi ráðlegging er hins vegar mjög varhugaverð því hunang getur innihaldið dvalargró Costridium botulinum-sýkilsins og börn geta veikst alvarlega af bótulisma ef sýkillinn er til staðar. Heimild.
Sykraðar og saltaðar matvörur
Auk þess skal forðast að gefa börnum á þessu aldursskeiði sykraðar, saltaðar eða mikið unnar matvörur. Þó það séu til ávaxtasafar sem merktir eru ,,frá 4 mánaða aldri” er ekki æskilegt að gefa ungabörnum þessa safa. Hafa ber í huga að passa að gefa ekki barninu of stóra og/eða harða bita sem staðið geta í þeim. Heimild.
Hrísgrautur eða aðrar vörur úr hrísgrjónum
Hrísgrautar og hrísgrjónavörur geta innihaldið þungmálminn arsen, en arsen í of miklu magni getur haft skaðleg áhrif á ung börn. Því er æskilegt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og passa að gefa mismunandi tegundir grauta, en ekki aðeins hrísgrauta. Heimild.
Spínat og rabbarbari
Ekki er ráðlagt að gefa börnum spínat né rabbarbara. En þessar fæðutegundir eru ríkar af oxalsýru, en oxalsýra bindur kalkið og dregur því úr nýtingu kalks í líkamanum. Heimild.
Rúsínur
Rúsínur geta innihaldið leifar af sveppaeitri og því er ekki ráðlagt að gefa ungum börnum meira en 50 g af rúsínum á viku. Heimild. 50 g af rúsinum samsvara 5 litlum rúsínupökkum (10 g í einum pakka).
Skyr og fituskert mjólk
Skyr er einfaldlega of próteinrík og fitulítil fæða fyrir börn á þessu aldursskeiði. Betra væri að gefa barninu fullfeita jógúrt, t.d. venjulega hreina jógúrt eða gríska jógúrt. Stoðmjólk hentar betur til drykkjar en léttmjólk, fjörmjólk eða undanrenna. Heimild. Ath! Það er ekki skaðlegt að gefa barninu eitt glas af fituskertri mjólk eða nýmjólk ef stoðmjólk eða brjóstamjólk er ófáanleg þá stundina.

Barnið borðar sjálft…eða bara ekki?
Á síðastliðnum árum hefur færst í aukana að notast við aðferðina ,,Barnið borðar sjálft” þegar barn er að byrja forða fasta fæðu.
Þeir lesendur sem þekkja ekki þessa aðferð, geta lesið sér til um hana með því að googla ,,Baby led weaning”. Það er til hafsjór upplýsinga um þetta.
Sumum börnum gengur vel með þessa aðferð, en öðrum hins vegar ekki. Öll heilbrigð börn læra að borða á endanum og því er ekki ástæða til að vera vonsvikin yfir því að geta ekki notað þessa umræddu aðferð ef það hentar ekki barninu. Yngra barnið mitt réð ekki við þessa aðferð, en það stóð ítrekað í henni, sem endaði oft með að gusan stóð út úr henni og máltíðin var því hreinlega ónýt. Í stuttu máli, þá gafst ég upp á þessari aðferð og kenndi barninu bara að borða á venjulegan máta 🙂
Ef þessi aðferð virkar, þá er það bara gott mál. Barnið borðar og foreldrarnir ,,sleppa við” að mata það, þar til barnið er farið að ráða við að borða sjálft.
Gullna reglan
Ekki reyna fylgja öllum reglum og gera allt rétt alltaf, hvað varðar mataræði barna. En í þessari upptalningu eru atriði sem gott er að hafa í huga, fyrir börn á aldrinum 6-12 mánaða.

Höfundur er með BS-gráðu í næringarfræði og er í mastersnámi í matvælafræði.

Facebook Comments