Næring ungbarna á aldrinum 0-6 mánaða

Næring ungbarna á aldrinum 0-6 mánaða

Þið lesendur sem eigið börn kannist líklega við það að hafa fengið þykkan bunka af bæklingum við komu í ungbarnavernd á heilsugæslu. Í bæklingunum má lesa sér til um allt milli himins og jarðar sem varðar börn.

EN… Hversu margir foreldrar lesa þessa bæklinga í raun og veru? Mér finnst líklegt að þeir fari ofan í skiptitösku, krumpast þar og enda á að verða fórnarlamb opinnar skvísu eða pela og enda því fyrr eða seinna í ruslinu. Eða ofaní skúffu, uppí skáp. You name it!

Mig minnir reyndar að þegar ég hafi átt yngra barnið mitt ( árið 2014) hafi mér verið bent á að finna flestalla þessa bæklinga á netinu. Sem gerir það ennþá ólíklegra að hver og einn bæklingur verði lesinn, þar sem brjóstaþoka er jú einkennandi vandamál fyrstu mánuði eftir barnsburð.

Mig langar því að renna aðeins í gegnum ýmis atriði sem varða næringu ungbarna (frá fæðingu til 6 mánaða). Þó svo auðvelt sé að finna ýmsar upplýsingar á samfélagsmiðlum eða annars staðar, þá geta þær verið villandi og jafnvel varhugaverðar.

Brjóstagjöf og ábót

Mælt er með brjóstagjöf til eins árs aldurs ef hægt er. Ráðlagt er að barnist nærist eingöngu á móðurmjólk fyrstu 4-6 mánuðina. Ef brjóstamjólkin dugir ekki til, skal gefa barninu þurrmjólk sem ábót við brjóstagjöfina eða eina og sér. Heimild.

Til að koma brjóstagjöfinni af stað eftir fæðingu er mikilvægt að móðir og barn fái ró og næði, auk þess að móðirin fái að hvílast eins og hægt er. Brjóstagjöf getur gengið mjög erfiðlega, stundum gengur hún upp og stundum ekki. Það geta komið upp mörg flækjustig og þá er um að gera að gefa sér þolinmæði og tíma. Að gefa ábót er engin skömm og virða skal ákvörðun móður hvað varðar brjóstagjöf.

D-dropar

Ráðlagt er að gefa börnum D-dropa frá 2 vikna aldri. D-vítamín tryggir að kalk nýtist úr fæðunni og styrki þannig bein barnsins. Í einhverjum tilvikum virðast D-dropar fara illa í magann á börnunum. Þá er upplagt að byrja á að gefa einn dropa í 2-3 daga og vinna sig svo rólega upp í 5 dropa á dag. Ef barnið fær samt í magann má geyma dropana í viku og prófa svo aftur. Hér má finna frekari upplýsingar um D-vítamíndropana sem ætlaðir eru ungbörnum.

Fyrsta fæðan

Þegar barn hefur náð 4 mánaða aldri og hefur aukna þörf fyrir næringu (brjóstamjólk/þurrmjólk dugir ekki) má barnið fara smakka litla skammta af öðrum mat. Ráðlagt er að fyrsta fæða barnsins sé grænmeti, en ekki grautar eða ávextir. Þessi ráðlegging er til þess að barnið venjist öðru bragði en sætu sem fyrsta bragði á eftir mjólkurbragðinu, þó hún sé vissulega sæt á bragðið.

Mælt er með að auka fjölbreytni í fæðu tiltölulega hratt eftir að barnið fer að borða mat, en í litlum skömmtum. Ekki er talin ástæða til þess að bíða með neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda, þrátt fyrir að barn sé í áhættuhóp. Heimild. 

Fæða sem EKKI er æskileg börnum undir 6 mánaða aldri

Hunang

Nýbökuðum mæðrum er oft ráðlagt að setja hunang á snuð ungbarna sinna til þess að barnið taki frekar við snuðinu. Oftar en ekki er það eldri kynslóðin sem ráðleggur þetta og segja jafnvel fleygar setningar eins og “Ég gerði þetta við börnin mín og það er allt í lagi með þau”.

Þessi ráðlegging er hins vegar mjög varhugaverð því hunang getur innihaldið dvalargró Costridium botulinum-sýkilsins og börn geta veikst alvarlega af bótulisma ef sýkillinn er til staðar. Heimild.

Sykraðar og saltaðar matvörur

Auk þess skal forðast að gefa börnum á þessu aldursskeiði sykraðar, saltaðar eða mikið unnar matvörur. Þó það séu til ávaxtasafar sem merktir eru ,,frá 4 mánaða aldri” er ekki æskilegt að gefa ungabörnum þessa safa. Hafa ber í huga að passa að gefa ekki barninu of stóra og/eða harða bita sem staðið geta í þeim. Heimild.

Hrísgrautur eða aðrar vörur úr hrísgrjónum

Hrísgrautar og hrísgrjónavörur geta innihaldið þungmálminn arsen, en arsen í of miklu magni getur haft skaðleg áhrif á ung börn. Því er æskilegt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og passa að gefa mismunandi tegundir grauta, en ekki aðeins hrísgrauta. Heimild.

Spínat og rabbarbari

Ekki er ráðlagt að gefa börnum spínat né rabbarbara. En þessar fæðutegundir eru ríkar af oxalsýru, en oxalsýra bindur kalkið og dregur því úr nýtingu kalks í líkamanum. Heimild.

Rúsínur

Rúsínur geta innihaldið leifar af sveppaeitri og því er ekki ráðlagt að gefa ungum börnum meira en 50 g af rúsínum á viku. Heimild.

Höfundur er með BS-gráðu í næringarfræði og er í mastersnámi í matvælafræði.

 

Facebook Comments