Mömmujóga

Mömmujóga

Mig langar aðeins að deila með ykkur reynslu minni af mömmujóga.

Þegar yngri dóttir mín var rúmlega 6 vikna byrjuðum við mæðgur í mömmujóga hjá Maggý. Ég stundaði líka jóga hjá henni á meðgöngunni og því kom ekki annað til greina en að halda áfram hjá henni elsku Maggý.

11401485_10153321587094892_6126330395318910579_n

Tímarnir í mömmujóga eru ekki aðallega hugsaðir svo að móðirin geti komið sér í form eftir barnsburð heldur er stór partur af því að hlúa að andlegu hliðinni. Það er svo mikilvægt að nýbakaðar mæður fari út á meðal fólks í fæðingarorlofinu svo þær einangrist ekki. Smá spjall við einhvern sem skilur þig eftir langa andvökunótt eða erfiða brjóstagjöf getur gert kraftaverk!

Við mæðgur byrjuðum á námskeiðinu í janúar. Þessum dimma og kalda vetrarmánuði eftir að allt jólaskraut hefur verið tekið niður. Það voru ansi þung skref að fara í fyrsta tímann. Að halda út í myrkrið með eitt lítið kríli sem var jafnvel sofandi var eitthvað sem ég sá ekki alveg fyrir mér og miklaði mikið fyrir mér, en þegar ég náði að drösla okkur út í bíl var hálfur sigurinn unninn.

Um leið og maður mætti í tímann fann maður fyrir svo mikilli hlýju frá Maggý og ekki síst frá öllum öðrum mæðrum sem þarna voru. Það voru einhvernveginn allar þarna á sömu forsendum. Eftir nokkra tíma var ég allt í einu búin að eignast frábærar vinkonur sem voru í sömu sporum og ég.

Jógatímarnir samanstanda ekki bara af jógaæfingum heldur fengum við líka smá kennslu í ungbarnanuddi og þið getið ímyndað ykkur krúttleikann í einum sal þann daginn! Einnig kom Ebba Guðný og hélt fyrirlestur, tónlistarkennari var með smá tónlistartíma og svo var Maggý dugleg að brjóta upp tímann með því að fá okkur mæðurnar til að standa upp með börnin í fanginu og dilla okkur smá. Að ógleymdum Pálínuboðunum sem voru einu sinni á námskeiði.

11150730_10153254699584892_3052564264146508284_n

Aðstaðan hjá henni Maggý er alveg til fyrirmyndar og vel hugsað um bæði móður og barn. Nóg af dóti, mjúkar dýnur og allt til alls til að stunda öruggt og þægilegt jóga – en Maggý leggur mikið upp úr því að öllum líði vel og fari varlega í allar jógastöður.

Þegar líða tók á námskeiðið fórum við nokkrar mömmur að hittast – stundum fórum við saman í hádegismat eftir jógatímana og stundum hittumst við þá daga sem jógatímarnir voru ekki. Þetta var svo frábær leið til að ná sér út úr húsi og tala við fólk – sama hvort það var þegar við hittumst í jógatímunum eða utan þeirra, þá gátum við deilt öllum heimsins áhyggjum með hver annarri og það nenntu allir aðhlust a, þar sem við vorum allar í sömu sporum.

11896426_10153514221919892_4383860715899910585_o

Núna í nóvember er dóttir mín að verða 2ja ára og enn þann dag í dag erum við mömmurnar að hittast reglulega og enn þann dag í dag sakna ég jógatímanna með elsku Maggý! Ég gæti ekki mælt nógu mikið með þessum námskeiðum, bæði meðgöngujóganu og svo mömmujóganu.

12973487_10153982152254892_8461893469551710966_o

14632979_10211174788304670_3255155065553971427_n

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.